Burt með rónann

Greinar

Efnahagur Rússlands er hruninn. Seðlabanki landsins hefur á aðeins hálfum mánuði látið prenta innistæðulausar rúblur fyrir að meintu verðgildi um 150 milljarða íslenzkra króna. Þetta jafngildir 17% rýrnun á verðgildi rúblunnar, sem er í frjálsu falli þessa dagana.

Ríkisvaldið hefur misst eigur sínar í hendur nokkurra auðhringa, sem neita að borga skatta og skyldur. Þess vegna getur ríkið ekki greitt starfsmönnum sínum laun og stendur andspænis mótmælaaðgerðum og uppþotum. Hungur sverfur að fólki, sem áður var bjargálna.

Auðhringafurstarnir ráða gerðum Jeltsíns forseta að mestu. Þeir vilja hafa Tsjernómyrdín sem forsætisráðherra, af því að hann kemur úr þeirra hópi og gætir hagsmuna þeirra. Þeir knúðu fram seðlaprentun til að fresta því, að bönkum í eigu þeirra yrði lokað.

Einkum vilja auðhringafurstarnir þó áfram hafa hálfdauðan róna sem forseta. Hann eyðir mestum hluta tímans í kojufyllirí í sumarhúsi sínu, en birtist einstaka sinnum í Moskvu til að rugla dæmið og reka ráðherra. Á meðan geta auðhringarnir makað krókinn.

Hrun vestræns hagskipulags í Rússlandi stafar ekki af því, að það henti ekki öðrum ríkjum en Vesturlöndum. Að vísu hefur komið í ljós, að kaþólsk austantjaldslönd eru mun fljótari að verða efnahagslega vestræn heldur en orþódox austantjaldslönd á borð við Rússland.

Hrunið stafar að nokkru leyti af, að of geyst var farið í kerfisbreytinguna, meðal annars að kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, svo og að ráði ýmissa bandarískra ráðgjafa, sem kallaðir voru austur, þegar Rússar ætluðu snögglega að verða vestrænir.

Í Rússlandi vantaði mikið af undirbyggingu vestræns hagkerfis. Það vantaði heiðarleikann í stjórnsýsluna, hálaunaða embættismenn, sem ekki láta múta sér. Það vantaði vestræna þjóðfélagsumræðu og vestrænt valdajafnvægi ýmissa geira þjóðfélagsins. Því fór, sem fór.

Ráðamenn Vesturlanda bera hluta ábyrgðarinnar. Þeir studdu of hraðar aðgerðir, sem leiddu til, að óheftur dólga- og mafíukapítalismi leysti miðstýringuna af hólmi. Þeir hafa jafnan sett traust sitt á Jeltsín forseta, sem er alveg óhæfur um að stjórna einu eða neinu.

Afdrifaríkastur hefur orðið stuðningur ráðamanna á Vesturlöndum við rónann á rúmstokknum. Þeir hafa ímyndað sér, að Jeltsín tryggði festu í siglingu Rússlands í átt til vestræns þjóðskipulags. Hann hefur hins vegar reynzt vera helzta hindrunin á þeirri siglingu.

Síðara kjörtímabil Jeltsíns forseta hefur verið samfelld harmsaga. Þjóðarhagur og þjóðarreisn hafa rústast svo gersamlega vegna stjórnleysis hans og yfirgangs auðhringafursta og annarra mafíósa, að löng bið verður á, að Rússland geti aftur farið að sigla í vesturátt.

Erfitt er að sjá glætu í þjóðmálum Rússlands. Þótt Tsjernómyrdín sé afleitur, eru þó verri þeir, sem sagðir eru munu leysa hann af hólmi, annað hvort Prímakov utanríkisráðherra, sem er andvígur öllu vestrænu, eða Lúzhkov Moskvuborgarstjóri, sem er hreinn mafíósi.

Í stöðunni kann að reynast bezt að leysa þingið upp og efna til nýrra kosninga. Nýtt þing verður þó ekki leiði-tamara forsetanum, sem er sjálfur stóra vandamálið í Rússlandi. Með nýju þingi rísa ný átök um skipun forsætisráðherra og önnur pólitísk ágreiningsefni.

Ekkert gerist af viti í málum Rússa fyrr en róninn hefur sagt af sér sem forseti. Þá fyrst geta þeir hafið langa og erfiða siglingu í átt til velsældar Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV