Þakkað fyrir góðærið

Greinar

Kjósendur eru sáttir við ríkisstjórnina og telja sér vel borgið undir verndarvæng hennar. Góðærið er einkum þakkað Sjálfstæðisflokknum með hreinu meirihlutafylgi. Hvort tveggja kemur skýrt fram í skoðanakönnunum um fylgi stjórnmálaflokkanna og ríkisstjórnarinnar.

Meirihluti okkar hefur það gott og sér fram á bættan hag á næstu misserum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst að meðaltali um 6,9% á síðasta ári og eykst um 8,3% á þessu ári. Samanlögð aukning þessara tveggja ára er 15,8%, þrefalt meiri en í viðskiptalöndum okkar.

Að baki þessa liggur mikill hagvöxtur, að meðaltali 4% á ári í hálfa öld, sem jafngildir 2,5% vexti á mann á ári. Síðustu tvö árin og á þessu ári er vöxturinn heldur meiri, um 5% á ári. Hagvextinum hefur verið veitt rækilega út í kaupið, svo að fólk er almennt ánægt.

Ísland er rétt ofan við mitt blað í fjölþjóðlegri skýrslu um samkeppnishæfni landa, í 19. sæti af 46 þróuðum löndum. Við búum við góðan mannauð og efnahag, svo og sveigjanleika í atvinnulífi, en stöndum okkur miður í vísindum og tækni, svo og í alþjóðavæðingu.

Það getur orðið langtímavandamál, hve lítinn áhuga stjórnvöld hafa á vísindum og tækni, þegar til kastanna og peninganna kemur, og hve andvíg þau eru aukinni þátttöku í evrópsku samstarfi. En kjósendur hafa ekki enn áttað sig á mikilvægi slíkra langtímamála.

Nærtækara vandamál felst í miklum og ört vaxandi halla á viðskiptum okkar við umheiminn. Fyrstu sex mánuðina í fyrra nam hallinn 3,3 milljörðum króna en komst upp í 24 milljarða króna sömu mánuði þessa árs. Þrátt fyrir mikil efni eyðum við um efni fram.

Góðæri feitu áranna er þannig ekki nægilega beitt til að safna til mögru áranna. Ábyrgari stjórnvöld mundu lagfæra ramma fjármála á þann hátt, að þeir hvettu fólk til að spara meira og eyða síður um efni fram. En kjósendur verðlauna ekki slíka ábyrgðartilfinningu.

Með auknum útgjöldum til vísinda og tækni, með aðild að Evrópusambandi og nýjum gjaldmiðli Evrópu, með skattareglum, sem hvetja til aukins sparnaðar, væri unnt að virkja góðærið enn betur til framtíðarheilla. En kjósendur sætta sig greinilega við stöðuna.

Enda er ástandið í stórum dráttum gott. Almenningur fær að taka fullan þátt í góðærinu og leyfir sér ýmsan nýjan lúxus. Atvinna er aftur orðin traust og áhyggjur manna út af framtíðinni eru því minni en þær voru fyrir nokkrum árum. Fólk lifir meira í deginum.

Við þessar aðstæður styðja kjósendur ríkisstjórnina og höfuðflokk hennar, Sjálfstæðisflokkinn. Eina truflunin, sem getur orðið á núverandi stöðu mála, er, að Framsóknarflokkurinn fari svo illa út úr kosningunum á næsta vori, að hann kenni stjórnarsamstarfinu um.

Eindregnasti stuðningsmaður núverandi stjórnarsamstarfs innan Framsóknarflokksins er formaðurinn sjálfur, fremur litlaus og alvörugefinn. Ef flokkurinn telur sér henta að tefla fram meira spennandi formanni, kann flokkurinn að halla sér að nýju til vinstri.

Flest bendir til, að samruni A-flokkanna muni ekki að sinni leiða til aukinna áhrifa þeirra í landsmálunum. Ef vinstri stjórn kemst á laggirnar eftir kosningarnar, verður það vegna innri mála Framsóknarflokksins, en ekki vegna hrifningar kjósenda á sameiningunni.

Í góðæri velja kjósendur óbreytt ástand af eðlilegum ástæðum. Þar sem ekki sér fyrir enda góðærisins, sér ekki heldur fyrir enda núverandi stjórnarsamstarfs.

Jónas Kristjánsson

DV