Skákmenn hossa mafíósa

Greinar

Kirsan Iljíumzhínov, forseti sjálfstjórnarhéraðsins Kalmykíu í Rússlandi, er mafíósi, sem ræður héraðinu í skjóli þess, að veikur armur rússneskra stjórnvalda nær ekki lengur til úthéraða. Helzta áhugamál þessa mafíósa er að gera héraðið að skákmiðstöð heimsins.

Í sumar lét Iljíumzhínov myrða Larisu Judinu, 53 ára gamla ömmu, af því að hún hafði skrifað um ýmsa spillingu og lögleysu í héraðinu. Hann hafði áður komið í veg fyrir, að blað hennar væri prentað þar, en hafði ekki getað hindrað, að það væri prentað utanhéraðs.

Rannsóknarlögreglumenn frá Moskvu könnuðu málið. Niðurstaðan var sú, að Sergei Stepashin, þáverandi innanríkisráðherra Rússlands, sagði, að þetta væri dæmigerður mafíuglæpur. Og Jeltsín Rússlandsforseti sagði, að lögreglunni í Kalmykíu væri ekki treystandi.

Iljíumzhínov komst til valda á kosningaloforðum um að gera Kalmykíu að eins konar Kúveit, þar sem hver íbúi ætti gemsa. Síðan hefur hann hagað sér gerræðislega, látið myrða þá, sem standa í vegi hans, rænt öllu steini léttara í héraðinu og fengið sér sex Rollsa.

Eitt af áhugamálum ódæðismannsins er að láta birta um sig teiknimyndasögu í Batman-stíl. Annað áhugamál hans er, að gera Kalmykíu að skákveldi. Með mútum hefur honum tekizt að verða forseti Alþjóða skáksambandsinsins og halda ólympíuskákmót í Kalmykíu.

Iljíumzhínov er skrípamynd af hinum gamalkunna Campomanesi, sem varð ríkur af því að stela fé á Filippseyjum í skjóli Marcosar, þáverandi forseta og stórtækasta þjófs aldarinnar, og notaði peningana til að kaupa sér atkvæði í forsetaembætti skáksambandsins.

Skákmenn hafa löngum látið sig hafa það, að forsæti Alþjóða skáksambandsins gengi kaupum og sölum. Þetta varð þeim álitshnekkir á valdatíma Campomanesar, sem var þó bara þjófur, en er orðið verra núna, þegar ruglaður mafíósi og morðingi er orðinn sambandsforseti.

Til þess að geta haldið ólympíuskákmót í Elista, höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins, hefur Iljíumzhínov stolið öllu fé, sem átti að fara til rekstrar barnaheimila, skóla og sjúkrahúsa. Fyrir þá peninga er íslenzka ólympíusveitin nú komin til Kalmykíu að tefla skák.

Margar vestrænar skáksveitir sátu heima frekar en að óhreinka sig á ránsfé mafíósans. Það gerðu íslenzkir skákmenn hins vegar ekki, enda sáu þeir sér færi á að komast í efra sæti á mótinu, ef betri skákþjóðir mættu ekki til leiks. Þetta eru menn lítilla sanda og sæva.

Margir hafa þá skoðun, þegar það hentar skammtímahagsmunum þeirra, að ekki beri að skipta sér af því, sem þeim komi ekki við. Íslenzka skáksambandið hefur á þessum grundvelli ákveðið, að siðalögmál þurfi ekki að hindra íslenzka skákmenn í að fara til Kalmykíu.

Ef almennt væri hugsað svona á Vesturlöndum, væri illt í efni. Það er einmitt aðallega fyrir margs konar þrýsting frá Vesturlöndum, að þjófar og morðingjar á borð við Iljíumzhínov hafa hrökklazt frá völdum í þriðja heiminum og líðan fólks þar orðið bærilegri.

Þess í stað eru íslenzkir skákmenn orðnir hluti af skrautsýningu austur í Elista. Ólympíumótið nær þó ekki því markmiði að fella í gleymsku óhæfuverk á borð við morðið á Larissu Judínu. Það þvær ekki mafíósann, en óhreinkar þá, sem taka þátt í sýningunni.

Við munum ekki klappa, þegar Íslendingarnir koma heim og guma af að hafa náð góðum árangri í skjóli þess, að betri skákmenn höfðu ekki lyst á að mæta.

Jónas Kristjánsson

DV