Kínamúrinn

Veitingar

Kínamúrinn er notaleg matarhola, sem líður fyrir afleitt veitingahús með sama nafni, sem um hríð var rekið á þessum stað. Þetta nýja er miklu betra, býður sómasamlegan mat við vægu verði, eitt fárra frambærilegra hér á landi, sem kenna sig við austræna matreiðslu.

Við ramman reip er að draga við Hlemmtorg, þótt staðurinn sé áberandi. Reynslan sýnir, að í þessum húsakynnum hefur hver veitingastaðurinn á fætur öðrum lagt upp laupana: Kráin, Mamma Rosa, Zorba, Alex, Rauði sófinn og Prag, sumir hverjir betri en sá, sem nú storkar örlögunum.

Veitingasalurinn er óbreyttur frá fyrri tilvistarstigum, einfaldur vinkill umhverfis skenkinn, hóflega búinn Kínaskrauti og lágværum Austurlandahljómum í seinni tíð. Þjónusta er austræn og viðkunnanleg, í meira lagi undirgefin í samanburði við íslenzka hefð.

Í hádeginu fæst súpa og val milli nokkurra aðalrétta á 580 krónur að meðaltali. Á kvöldin er mest byggt á fjögurra og fleiri rétta syrpum á 1880 krónur að meðaltali. Hvort tveggja hlýtur að teljast notalegt fyrir viðskiptavini og gefur ekki tilefni til listrænna tilþrifa í eldhúsi.

Súpur eru misjafnar. Blönduð sjávarréttasúpa var tær og fremur þunn rækju- og fiskisúpa. Eggjadropuð sjávarréttasúpa var betri rækju- og skötuselssúpa. Blandaðir réttir kaldir reyndust vera spjótgrillað lambakjöt, pönnusteikt nautakjöt og fátækleg gúrka, sem gekk undir nafninu sjávarréttur.

Pönnusteiktur smokkfiskur var seigur, svo sem búast má við á austrænum veitingastað, gerólíkur hinni meyru matreiðslu hans á góðum Vesturlandastöðum. Pönnusteiktur koli var hins vegar milt eldaður, borinn fram með mildri sojasósu. Djúpsteiktur humar var í miklum, en léttum hjúp, góður á bragðið, borinn fram með súrsætri sósu.

Kong Pau-kjúklingur með hnetum var ekki heldur ofeldaður og ágætlega bragðsterkur, rétt eins og og Szechuan-pönnusteikt nautakjöt með sterkum pipar í sósunni. Milt var hins vegar snöggsteikt lambakjöt. Yfirleitt voru betri gætur hafðar á eldunartíma en tíðkast á austrænum veitingahúsum hér á landi.

Pönnusteikt grænmeti, sem fylgir næstum öllum réttum, fiski jafnt sem kjöti, er fremur staðlað, bambus, blaðlaukur, laukur, kínakál og gulrætur. Það bendir til, að kunnáttusvið kokksins sé í þrengsta lagi.

Sú kenning fékk byr undir báða vængi, þegar beðið var um sæta vorrúllu með þeyttum rjóma samkvæmt matseðli. Ekki var hægt að fá hana, heldur sæta vorrúllu með ís, þeyttum rjóma og súkkulaðisósu. Ekki var hægt að fá sleppt ísnum og sósunni, svo að sennilega kemur rétturinn fullgerður og frosinn í hús.

Djúpsteiktar eplakúlur voru góðar, bornar fram með vanilluís og þeyttum rjóma. Jasmín-te var ekki fáanlegt, sem bendir til, að metnaði staðarins sem Austurlandahúss sé í hóf stillt.

Jónas Kristjánsson

DV