Madonna

Veitingar

Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Spánarvín skuli vera kjölfesta vínlistans á veitingahúsi, sem kallar sig “ristorante” og “í ítölsku umhverfi”. Og ekki er mikill Ítalíusvipur á að bjóða þunnt kaffi úr sjálfsala og kalla það espresso.

Gervimúrsteinn og gervimarmari, gervisúlur og gervibitar, vafnir gerviblómahafi, og dauflega kertalýst myrkur um miðjan dag eiga að höfða til ástarævintýra með contessum við hrundar hallir á hæðunum við Flórens, en virka í raun eins og leiksvið.

Þegar kjörþyngdarfólk hefur troðið sér í bakháa bekki og hinir hafa setzt í stólana fyrir framan, kemur í ljós, að þetta er notaleg og næstum rómantísk veitingastofa með góðri þjónustu og frambærilegum Ítalíumat fyrir lægsta verð, sem þekkist hér á landi.

Hér borga menn í hádeginu 785 krónur fyrir súpu og pöstu og 885 fyrir súpu og fiskrétt. Annars kosta níu tomma pítsur 950 krónur, pöstur 1050 krónur, alvöruréttir 1590 krónur og þríréttað með kaffi 3100 krónur. Þetta verð er til fyrirmyndar.

Gengið er þröngan gang inn að þröngum skenk með reyksal til hægri og reyklausan til vinstri, þar sem öflugar loftviftur halda góðu lofti. Lágvær óperutónlist hefur í seinni tíð vikið fyrir lágværu jarmi í Eurovision-stíl, sem hverfur í kliðinn við borðin, þar sem jafnan er setinn bekkurinn.

Rjómuð og rauðleit humarsúpa, þakin þeyttum rjóma, var meyr og matarmikil, borin fram með hvítlauksbrauði, sem fylgir mörgum réttum staðarins. Ítalskt salat með ólífum, pepperoni, skinku, túnfiski og rækjum reyndist vera heil máltíð. Gott var ferskt og fjölbreytt grænmetissalat með ostasósu.

Meira spennandi forréttir voru hvítlauksristaðir og meyrir sniglar með mikilli hvítlauksrjómasósu ofan á beði jöklasalats. Og smávaxinn hörpuskelfiskur, örlítið of mikið pönnusteiktur í mildu raspi og sterkri freyðivínssósu.

Góð var pitsa Veneziana með eggjum, beikoni og lauk, svo og hæfilega brakandi kanti. Pöstur voru enn betri, nákvæmlega soðnar, svo sem fettucini með humri í skelfisksósu. Spaghetti carbonara var líka léttsoðið, en hins vegar ofhlaðið grana-osti og skorti alveg skinku og harðsoðin egg.

Mildilega pönnusteikt ýsa í mildu karríi var frambærileg, en benti til, að fiskur kæmi ekki daglega í húsið. Hæfilega smjörsteiktur skötuselur í hvítvínssósu var líka góður, en pönnusteikt grænmeti með honum stakk í stúf. Bökuð kartafla virtist fylgja öllum fiskréttum.

Súkkulaðifrauð var létt og hlutlaust, með þeyttum rjóma. Ostakaka var hæfilega mjúk og góð, en ofhlaðin ávöxtum, þeyttum rjóma og aðallega sultu. Það er vel hægt að hugsa sér að koma hér aftur.

Jónas Kristjánsson

DV