Öðruvísi væri um að litast í landbúnaði, ef tekið hefði verið mark á kenningum, sem settar voru fram í leiðurum forvera þessa blaðs fyrir aldarfjórðungi og síðan ítrekaðar mörgum sinnum á hverju ári. Þá væri afkoma bænda ekki eins dapurleg og hún er nú.
Stjórnvöld hafa á síðustu árum og allt of seint byrjað að gera sumt af því, sem auðveldara hefði verið fyrir aldarfjórðungi. Þau hafa dregið úr framlögum til landbúnaðar og notað hagnaðinn til að kaupa framleiðslurétt af bændum til að auðvelda þeim að bregða búi.
Með því að fresta aðgerðum í tvo áratugi töldu stjórnvöld bændum trú um, að þeir þyrftu ekki að laga sig að markaðsaðstæðum. Þau bjuggu jafnframt til hrikalegt kostnaðardæmi, sem dró úr getu ríkissjóðs til að auðvelda bændum að laga sig að aðstæðum.
Fyrir aldarfjórðungi var augljóst, að landbúnaðurinn gæti ekki og mundi ekki geta selt afurðir sínar úr landi, af því að verndarstefna gildir með fleiri þjóðum en okkur. Þá var einnig augljóst, að innanlandsmarkaðurinn mundi dragast saman með breyttum lífsháttum.
Hér í blaðinu var spáð, að markaður til langs tíma yrði fyrir um það bil 2.000 bændur. Þeir voru þá nærri 5.000. Síðan hefur þeim fækkað niður í 3.000 og á enn eftir að fækka um 1.000. Það eru einkum sauðfjárbændur, sem eru enn alltof margir miðað við markaðinn.
Vandræði bænda byggjast einkum á því óláni að standa sífellt öfugum megin í markaðslögmáli framboðs og eftirspurnar. Verðlag þrýstist niður, þegar framleiðsla er meiri en eftirspurn. Þetta er eitt af þessum einföldu lögmálum, sem margir eiga erfitt með að skilja.
Með því að borga bændum fyrir að búa áfram og framleiða sem mest voru stjórnvöld áratugum saman að framlengja ójafnvægi, sem hefur alltaf verið bændum í óhag, þótt fæstir þeirra hafi viljað skilja það. Þeim væri í hag að finna nýtt jafnvægi sem allra fyrst.
Enn hafa stjórnvöld aðeins tekið á þeim hluta vandans, sem snýr að lokuðum innanlandsmarkaði. Enn hefur ekki verið horfzt í augu við þá augljósu framtíð, að markaðurinn mun opnast fyrir erlendri búvöru vegna fríverzlunarsamninga, sem ríkið verður að gera.
Titölulega fáir, öflugir og sérhæfðir bændur eru miklu betur í stakk búnir að mæta síðari hluta vandans heldur en margir og skuldugir bændur með fjölbreyttan búskap, einkum ef hann er af hefðbundnu tagi. Þeir, sem nú þegar lepja dauðann úr skel, hafa litla von.
Loðdýramenn og hrossaræktendur eru dæmi um sérhæfða bændur, sem geta mætt ótryggri framtíð, ef þeim fjölgar ekki um of. Þeir hafa fundið glufur á erlendum markaði, sem geta gefið góðar tekjur, ef menn gæta þess að hefja ekki eitt offramleiðsluæðið enn.
Lífrænir bændur eiga líka möguleika, ef menn falla ekki í þá gryfju að ímynda sér, að unnt sé að ljúga því að útlendingum, að íslenzkur landbúnaður sé meira eða minna lífrænn eins og hann er núna. Blekkingar verða til þess eins, að markaðurinn hrynur.
Fáir aðrir en loðdýra-, hrossa- og lífrænir bændur eiga færi í útflutningi. Aðrir verða að sæta innlendum markaði, sem mun áfram minnka, hægt og sígandi í mjólkurvörum og hraðar í kjötafurðum, einkum af sauðfé. Áróðursherferðir munu áfram mistakast.
Fyrir aldarfjórðungi tóku menn illa ráðum af þessu tagi. Þess vegna varð undanhaldið ekki skipulegt, heldur hröktust menn slyppir úr einu víginu í annað.
Jónas Kristjánsson
DV