Formúlan er líkleg til árangurs, tveir eigendur, annar í eldhúsi og hinn í sal, og fókusinn á matreiðsluhefðum skilgreinds svæðis, í þessu tilviki suðurstrandar Bandaríkjanna, Louisiana, Texas og Nýju-Mexíkó. Útkoman er falleg, bragðgóð og matarmikil í Creole Mex á Laugavegi 178, þar sem einu sinni var Smárakaffi, síðan Halti haninn, svo Gyllti haninn, þá Gullni haninn og loks Safari, áður en núverandi myndbirting kom til skjalanna í vor.
Innréttingar eru frá tíð Gullna hanans, viftur, speglar og tréverk í lofti, veggbogarið milli hálfsúlna, viðarpanill upp eftir veggjum, plastplötur og trérammar á berum borðum, vandaður húsbúnaður. Inn í þetta hefur verið komið fyrir mexikóskum skreytingum, höttum, vefnaði og ljósmyndum, svo og mexíkóskri músík, einnig kaktusum, gerviblómum og rómantískum kertaljósum.
Eina ómerkilega atriði matreiðslunnar var súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa að dönsk-íslenzkum hætti millistríðsáranna. Hún var þáttur í tveggja rétta hádegistilboði á 795 krónur. Annars kosta aðalréttir um 1560 krónur og þríréttað með kaffi 3.000 krónur. Allt er þetta hóflegt á íslenzkum mælikvarða.
Í hádegistilboðinu er val milli nokkurra aðalrétta. Fallegur og bragðgóður réttur fólst í Creole-krydduðum kjúklingavængjum með hrísgrjónum og salati. Enn betri var Chinichanga frá Mexíkó, stór tortilla-kaka úr maísmjöli, vafin utan um kjúklingabita, borin fram á glæsilegan hátt með djúpsteiktum og stökkum brauðræmum efst, pönnukökunni næst og blöndu af hrísgrjónum og steiktu grænmeti neðst.
Glæsilegur og góður forréttur var lárperusalat með góðri sjávarréttablöndu ofan á djúpsteiktu brauði. Mjög bragðsterkar voru Nachos, djúpsteiktar brauðræmur með jalapeno-pipar, papriku, osti og lárperumauki. Slökust var Quesadilla, fremur bragðsterk, djúpsteikt kaka, fyllt osti og chilli-pipar, með salsa og sýrðum rjóma.
Gamalkunnur aðalréttur frá Hard Rock var Fajitas, sem kom á þremur diskum, pönnukökur í kökuboxi, snarkandi kjúklingabitar á pönnu og í þriðja lagi meðlæti, einkum hrásalat. Þetta var gott, rétt eins og mjúka Burrito tortillan, vafin utan um kjöt- og baunahakk.
Bezti aðalrétturinn var nákvæmlega hæfilega eldsteikt silungsflak, borið fram á hvolfi, með uppbrettu roði til hálfs, ofan á hrísgrjónum og ristuðu grænmeti, með sítrónublandaðri eggjasósu. Betri gerist matreiðslan ekki í beztu sjávarréttahúsum.
Ágætir voru þrír pílárar af súkkulaði-lagköku með ávaxtasalati og þeyttum rjóma og enn betri var hunangs-engiferís með myntu-súkkulaðibitum og þeyttum rjóma. Vonandi verður þessi staður langlífari en fyrirrennararnir á staðnum.
Jónas Kristjánsson
DV