Rex

Veitingar

Ég bjóst við vondum mat í hönnuðu umhverfi fyrir markhópa, þar sem fræga og fagra fólkið póserar og aðrir stara, en enginn hugsar um matinn, enda yrði kokkurinn rekinn, ef hann truflaði þjóðfélagslega ímynd staðarins með ætum mat.

Rex í Austurstræti kom mér á óvart með góðri, fjölbreyttri og oftast vandaðri matreiðslu, með áherzlu á einföld og falleg salöt, misjafnt eldaðar pöstur og hæfilega eldaða fiskrétti. Hér má fá marga rétti sem ekki fást annars staðar í bænum.

Matreiðslan bregzt í ýkjunum, svo sem í skerandi grunnlitum, blóðrauðu kúskusi og fagurgrænni kartöflustöppu. Samt er hún huglaus í hugrekkinu, þegar kemur að heillandi fjarlægum nöfnum á borð við tandoori og satay og cajun. Bragðdaufu útgáfurnar hér eiga fátt sameiginlegt með upprunalegu réttunum annað en uppskriftir að sósum. Meira að segja espresso-kaffið er þunnt.

Rex er snjóhvítur og silfurgrár, kaldur og harðneskjulegur, með risastórum gluggum út að vetrarveðrum stormgjárinnar fyrir utan og gæti verið notalegur í 35 stiga hita. Búnaður og skraut er úr silfurgráu áli og gamla gifsflúrið er einnig silfrað. Breið og glansandi steinflísabraut liggur frá anddyri að baklýstum bar. Meðfram þverveggjum eru silfraðir og óþægilegir sófar og á móti þeim silfraðir og þægilegir álstólar við þétta röð smáborða.

Þjónusta var undantekningarlaust fagleg og góð, látlaus og mundi, hver hafði pantað hvað. Tauþurrkur eru á borðum jafnt í hádegi sem að kvöldi. Vínlistinn er fjölbreyttur og djarfur, felur meðal annars í sér Chateau Musar frá bjartsýnismanninum Serge Hochar í Líbanon.

Salöt voru flest góð, byggð á ítölsku rosa, með feta-osti og tómötum. Með einu þeirra komu þó þurrir og daufir kjúklingabitar, en ekki stífkryddaðir og grillaðir á spjóti eins og ætla hefði mátt af matseðlinum. Bezta salatið var fallegt Rex-salat með góðum og heitum linsubaunum og kryddlegnu hrásalati. Andasúpa var tær og góð, með hörpudiski, sem hæfði ekki öndinni og varð torkennilegur í bragði.

Falafel reyndust vera baunabollur, harðar að utan og mjúkar að innan, réttilega, en þó feimnislega kryddaðar með kóríander, ómur frá arabískum heimi. Hrísgrjónablandaður humar, vafinn í lárviðarblöð, var góður, borinn fram með ávaxtasalati og blóðrauðum kúskus-sívalningi úr sprengdu hveiti, skemmtilegur réttur.

Steikt og dimmgrænt spaghetti, basilikum-kryddað með kjúklingi var fullmikið eldað, en eigi að síður gott. Ljósgrænar tagliatelle-ræmur með hörpuskel, sköfnum parmiggiano-osti og svörtum pipar voru nákvæmlega rétt eldaðar og bragðgóðar eftir því.

Grillaður koli var hæfilega eldaður, með fínni og tærri saffransósu og ítölsku hrásalati, fallegur og góður matur. Cajun lúðan var líka hæfilega elduð og einkar bragðgóð, en var of dauft krydduð til að vera cajun, borin fram með fagurgrænni og basilikum-kryddaðri kartöflustöppu.

Kjúklingur var kallaður tandoori, misheppnaður og þurr, húðaður, en ekki brenndur með sósu. Réttinum bjargaði frábær blanda af hrísgrjónum og lime.

Mikado-ís var borinn fram með volgum spergli og jarðarberjum, óvenjulegur eftirréttur. Ostakakan reyndist vera mjúkt ostakrem á hörðum kökubotni, þakið ostaþráðum, áhugaverður réttur.

Tvíréttað í hádeginu kostar 1.200 krónur. Á kvöldin er meðalverð aðalrétta 1525 krónur og þríréttuð máltíð fer í 3.600 krónur. Gestir voru fáir og litu út fyrir að vera venjulegt fólk.

Jónas Kristjánsson

DV