Sami gamli flokkurinn

Greinar

Um helgina mun Framsóknarflokkurinn staðfesta á flokksþingi sínu, að hann sé ekki umhverfisvænn stjórnmálaflokkur. Að hefðbundnum sið mun hann ítreka, að staðbundnir sérhagsmunir skuli ráða, hvernig og hvenær íslenzkri náttúru skuli verða misþyrmt.

Áður einkenndi andúð Framsóknarflokksins á náttúru landsins, að hann studdi jafnan af mikilli hörku óheft sauðfjárhald og vaxandi ofbeit á hálendi. Þessi ofbeit var úrslitaatriði í flóknu samspili náttúrunnar og olli mestu gróðurspjöllum, sem þekkjast í Evrópu.

Þótt hin eindregna ofbeitarstefna Framsóknarflokksins hafi hrunið vegna þeirra ytri aðstæðna, að lambakjöt seldist ekki, þá hefur enn ekki tekizt að snúa vörn í sókn í gróðurdæmi landsins. Rannsóknir sýna, að náttúran er enn á undanhaldi fyrir mannanna verkum.

Þegar eldgos og hvassviðri voru ein um hituna, var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu til kola á Kili. Örlagavaldurinn í mestu gróðureyðingu Evrópu er því sauðfjárræktin, sem nú er í andarslitrunum eftir faðmlög Framsóknarflokksins.

Hamslaus stórvirkjana- og stóriðjustefna hefur nú tekið við af stefnu hamslausrar sauðfjárræktar hjá þeim stjórnmálaflokki, sem um langt skeið hefur farið með völd í öllum helztu valdastofnunum landeyðingar, landbúnaðar-, iðnaðar- og umhverfisráðuneytunum.

Helztu ráðamenn flokksins tala í fúlustu alvöru um að umturna gróðri hálendisins með stíflugörðum og að mynda þar uppistöðulón, sem hlutverks síns vegna verða með breytilegri vatnshæð og geta því ekki myndað gróðursæla bakka eins og venjuleg vötn gera.

Helztu ráðamenn flokksins hafa varpað fram hugmyndum um kaup og sölu á heimskunnum náttúruperlum, til dæmis að fórna Eyjabökkum til að varðveita megi Þjórsárver. Þetta eru óforbetranlegir fjandmenn náttúru landsins, sannir Framsóknarmenn.

Ráðamenn flokksins munu á þinginu flagga óraunhæfu mati Landsvirkjunar á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju, þar sem allt of lítið og nánast ekkert tillit er tekið til herkostnaðarins. Þeir munu mála á vegginn engilbjarta mynd af framtíð austfirzkra hagsmuna.

Það sem skilur stóriðju frá öðrum atvinnuvegum nútímans, svo sem tölvuvinnslu og ferðaþjónustu, er annars vegar, að hún krefst gífurlegrar fjárfestingar að baki hvers atvinnutækifæris, sem hún skapar, og hins vegar, að hún á erfitt með að laga sig að aðstæðum.

Þetta gildir jafnt um orkuverin eins og iðjuverin, svo sem við höfum séð af virkjun Blöndu, þar sem óheftir stóriðjudraumar andstæðinga íslenzkrar náttúru leiddu til gífurlegrar fjárfestingar, sem skilaði engum arði árum saman og bar jafnframt mikla vaxtabyrði.

Stóriðjudraumarnir hunza hagsmuni ferðaþjónustu, sem munu aukast á næstu árum eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Engin vitræn úttekt hefur farið fram á afleiðingum stóriðjudrauma ráðamanna Framsóknarflokksins á afkomu í ferðaþjónustu.

Alvarlegasti þáttur málsins er skorturinn á reisn, sem einkennt hefur stjórn Framsóknarflokksins á málaflokkunum, sem snerta risavaxna skuld þjóðarinnar við náttúru Íslands. Ráðamenn flokksins tala eins og við enn þann dag í dag aumingjaþjóð á hungurmörkum.

Flokksþing Framsóknar um helgina mun staðfesta, að ekkert hafi breyzt. Flokkurinn sé enn eins fjandsamlegur náttúrunni og hann hefur jafnan verið.

Jónas Kristjánsson

DV