Formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti um helgina, að hann væri hinn ánægðasti með viðhorf formanns Framsóknarflokksins til Evrópusambandsins, enda hefði formaðurinn fyrirfram sýnt sér stefnuræðuna, sem hann ætlaði að flytja á flokksþingi sínu um helgina.
Tilkynningarskylda Framsóknarflokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum er eðlileg afleiðing af góðum takti í stjórnardansi flokkanna. Flokkarnir hafa nálgast hvor annan svo mjög, að erfitt er að greina milli þeirra, enda er sjálfgefið, að þeir starfi saman eftir kosningar.
Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að hálfs annars áratugar gömul ákvörðun um stórvirkjun á Austurlandi skuli standa, án þess að fram fari umhverfismat á sama hátt og skylt er að gera, áður en ráðizt er í aðrar virkjanir.
Flokkarnir eru sammála um að afgreiða málið með þessum tæknilega hætti og taka ekki tillit til þess málefnalega sjónarmiðs, að í þessu máli sem öðrum þurfi að reikna dýrar frádráttarhliðar inn í reikningsdæmi, sem fyrir fimmtán árum voru einhliða talin jákvæð.
Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að standa fast að baki fyrri ákvarðana um, að auðlindir hafsins hafi verið og séu enn eign nokkurra útgerðarfyrirtækja, en almenningur megi kaupa sig dýrum dómum inn í þessa eign.
Flokkarnir eru sammála um að drepa málefnakröfunni um þjóðareign auðlinda hafsins á dreif með því að fleygja til þjóðarinnar ruðum á borð við, að einhver hluti heimilda til aukningar á veiði frá því, sem nú er, geti farið framhjá eignaskiptum útgerðarfyrirtækja.
Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að eftir yfirlýsingu forsætisráðherra í sumar megi nú ræða um, hvort Ísland eigi að ræða við Evrópusambandið um möguleika á einhvers konar aðild, án þess að í því felist nokkur ákvörðun um að stefna að slíkri aðild.
Flokkarnir eru sammála um, að ótímabært sé að taka mark á Evrópusinnum, sem telja, að viðskiptahagsmunum og fjármálahagsmunum, vísindahagsmunum og menntunarhagsmunum, réttlætishagsmunum og velferðarhagsmunum okkar sé bezt borgið í sambandinu.
Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að stefna frjáls markaðsbúskapar skuli víkja fyrir óskum bandarísks fyrirtækis um sérleyfi á heilsugagnagrunni um Íslendinga, enda hefur flokknum alltaf liðið vel sem skömmtunarstjóra.
Flokkarnir eru sammála um, að ekki sé þörf á að hlusta á þau 95% fræðimanna á fjölmörgum sviðum, sem hafa kvatt sér hljóðs um gagnagrunninn og finna honum flest til foráttu. Flokksþingið át úr lófa ráðherranna á þessu sviði sem öðrum framangreindum sviðum.
Athyglisvert er, að þessir tveir hjartanlega sammála stjórnmálaflokkar eru einmitt þeir, sem harðast hafa staðið gegn kröfunni um, að flokkar opni fólki sýn inn í fjármál sín, svo að sjá megi, í hversu miklum mæli hvaða stórfyrirtæki standa undir rekstri þeirra.
Þetta eru einmitt flokkarnir, sem áratugum saman hafa ýmist bitizt um misjafnan aðgang kolkrabbans og smokkfisksins að ríkiskötlunum eða gert með sér helmingaskiptafélag um aðganginn. Þetta eru flokkar útvalinna sérhagsmuna gegn almannahagsmunum.
Þar sem auðugu sérhagsmunirnir í þjóðfélaginu eru farnir að renna í einn og sama farveg, munu flokkarnir tveir geta unnið saman um ófyrirsjáanlega framtíð.
Jónas Kristjánsson
DV