Tilveran

Veitingar

Saltnotkun hefur minnkað til bóta, en eldunartímar á fiski eru enn óþarflega breytilegir á Tilverunni, sem um nokkurt skeið hefur haldið uppi merki framúrskarandi hagstæðs verðs á frambærilegum mat í Hafnarfirði. Þetta grænþiljaða og bleikmálaða friðarríki er búið að festa sig í sessi á horni Fjarðargötu og Linnetstígs.

Afspyrnuljótir pipar- og saltstaukar í formi grænmetis og ávaxta skera í augun, þar sem rúmt er setið við heimilislegar aðstæður í þægilegum stólum við kögurdúkuð borð undir lágværri tónlist og reynt að horfa á lítil og skemmtileg málverk frá Spáni.

Á kvöldin er hægt að velja milli sex rétta, auk súpu og eftirréttar, fyrir 1700 krónur að kaffi meðtöldu. Val milli fimm rétta, auk súpu, í hádeginu kostar 870 krónur. Þetta verðlag er hvergi slegið út á boðlegum veitingastað á Íslandi, nema á Laugaási í Reykjavík, og takmarkar annan metnað staðarins.

Þjónustan er elskuleg og kemur nógu af köldu vatni og mjúku brauði á borðið, meðan beðið er eftir matnum. Vínlistinn er stuttur, vel valinn og ódýr, með góðu Chile-víni í glasatali. Það eru einmitt svona staðir, sem við þurfum fleiri af til að fá almenning til að lyfta smekk sínum af skyndibitaplani yfir á fyrstu þrep almennilegs mataræðis.

Blaðlaukssúpa dagsins var því miður eins og oftar áður hefðbundin uppbökun á hveiti. Grænmetissúpa dagsins var skárri, einkenndist af tómati og ristuðum brauðteningum. Bezta súpan var tært grænmetisseyði með miklu af rækjum, laxi, lúðu, kræklingi og sveppum, hressileg vetrarsúpa. Salat dagsins var ferskt, en einkenndist af jöklasalati, borið fram með örlitlu af rækjum og skinkuræmum.

Hæfilega elduð og eins góð og hún gerist bezt á landinu var steikt tindabikkja með skemmtilega sterku sítrónusmjöri, hæfilega elduðum kartöflum og góðu hrásalati, tvímælalaust bezti réttur staðarins. Hins vegar var tvenna staðarins, rauðspretta og steinbítur, of mikið elduð, með hæfilega elduðum kartöflum, of þykktri humarsósu og sæmilegu hrásalati.

Hin tvenna staðarins, lamb og grís, var einnig ofelduð, einkum grísinn, sem var orðinn þurr. Með henni var samt ágætlega léttsoðið grænmeti og kartöflustappa, bökuð í hálfu hýði af stórri bökunarkartöflu, rauðlaukur og tómatar. Svipað meðlæti, og kryddlegnar perusneiðar að auki, fylgdi hæfilega léttsteiktum svartfuglsbringum með þunnri og góðri, en hlutlausri gráðostasósu.

Ís staðarins var lagskiptur vanillu og súkkulaðiís fíngerður með kiwi og vatnsmelónusneiðum. Ostakaka staðarins var einföld og bragðmild, lítið þéttari en búðingur. Kaffi var þunnt, en gott.

Jónas Kristjánsson

DV