Sérleyfið sjálft er vandinn

Greinar

Meirihluti heilbrigðisnefndar Alþingis bætir böl með því að búa til annað meira, með því að leggja til við Alþingi, að ráðherra verði heimilað að skattleggja sérleyfishafa erfðafræðilegs gagnabrunns í framtíðinni, ef hagnaður sérleyfishafans reynist verða mikill.

Hugmyndin um sjálfdæmi ráðherra er angi af þeirri áráttu Alþingis að koma sér hjá afgreiðslum með því að veita ráðherrum heimildir út og suður. Þetta valdaafsal hefur framleitt séríslenzkt ráðherraveldi, sem hefur hingað til leitt til margvíslegra geðþóttaákvarðana.

Auð ávísanablöð af þessu tagi eiga ekki að vera í umferð. Það brýtur gegn lýðræði og markaðshagkerfi í senn að framkalla öryggisleysi um framvindu mála. Ef sérleyfi deCode Genetics á Íslandi er gjaldskylt, á að segja þegar í upphafi, hvernig og hvert gjaldið skuli vera.

Enginn vafi er á, að sérleyfi hafa verðgildi, að minnsta kosti í augum þeirra, sem um þau sækja. Verðgildið er annars vegar hægt að mæla með ákveðnu hlutfalli af veltu eða skýrt skilgreindum hagnaði og hins vegar með útboði, þar sem umsækjendur verðleggja sérleyfið.

Segja má, að heilbrigðisnefnd hafi stigið örstutt skref í átt til skilnings á málinu, þegar hún er farin að ræða gjaldtöku fyrir sérleyfið. Hún er samt enn langt frá þeirri lausn málsins, að ekki verði gefið út sérleyfi, heldur veitt gjaldskylt frelsi öllum, sem um sækja.

Samkeppnisstofnun segir raunar í umsögn sinni um frumvarpið, að sérleyfi á gerð og rekstri gagnabrunnsins brjóti gegn reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Verða lögin væntanlega gerð afturreka eins og önnur séríslenzk vitleysa, svo sem ýmsir dómar Hæstaréttar.

Eins og mál hafa þróazt er skrítið, að höfundar frumvarpsins, að forstjóra deCode Genetics meðtöldum, skuli ekki hafa dómgreind til að gera sér grein fyrir hættunni frá innlendum og erlendum stofnunum, sem eiga að vaka yfir heiðarlegum samkeppnisháttum.

Einn af frumkvöðlum deCode Genetics hefur bent á, að fyrirtækið þurfi alls ekki sérleyfi. Það geti náð markmiðum sínum eftir sömu leiðum og önnur fyrirtæki. Frumkvöðlar eru verndaðir af innlendum og alþjóðlegum reglum um höfunda og uppfinningar.

Fyrir mánuði var sagt í leiðara DV, að tími væri kominn til, að deiluaðilar slíðruðu sverðin í deilunni um erfðafræðilegan gagnabrunn deCode Genetics, þannig að farið yrði bil beggja í sjónarmiðum um persónuvernd og fallið frá hugmyndinni um ólögmætt sérleyfi.

Því miður hafa mál ekki fallið í þennan farveg, þótt opnað hafi verið fyrir gjaldtöku í heilbrigðisnefnd Alþingis. Forstjóri deCode Genetics hefur enn forsætisráðherra í taumi og ráðherrann hefur enn hinn þögla meirihluta í taumi gegn þorra vísindasamfélagsins.

Enn hefur ekkert gerzt, sem bendir til annars en, að lögin um gagnabrunninn verði staðfest í núverandi mynd að mestu leyti og þar með verði opnað fyrir varanlegar illdeilur og andóf, þar á meðal kærur til erkibiskupa í Bruxelles, Strassbourg og Luxembourg.

Ríkissjóður Íslands á engan endurkröfurétt á hendur deCode Genetics, ef ráðamenn landsins veita því sjálfviljugir sérleyfi, sem leiðir til skaðabótakrafna af hálfu annarra aðila, sem telja sig málið varða, og refsiaðgerða af hálfu stofnana, ríkja eða Evrópusambandsins.

Flest bendir til, að með illu verði knúið fram gagnagrunnsfrumvarp, sem hefur verið vanhugsað í öllum sínum útgáfum og hefur lítið skánað í meðförum.

Jónas Kristjánsson

DV