Létta leiðin ljúfa í borginni

Greinar

Forustulið Reykjavíkurlistans telur, að meirihluti borgarbúa sætti sig hærri útsvör fyrir aukna þjónustu. Skoðanakannanir hafa sýnt, að ekki er einhlítt til vinsælda að skera niður útgjöld, því að margir þeir, sem vilja aukna þjónustu, átti sig á kostnaði við hana.

Þetta er önnur mikilvægasta ástæða þess, að meirihlutinn í Reykjavík telur óhætt að hækka útsvarið úr 11,24% í 11,99%, sem er mikil hækkun. Hin mikilvægasta ástæða hækkunarinnar er, að hún verður gleymd, þegar kemur að næstu borgarstjórnarkosningum.

Eftir tæplega fjögur ár getur borgin væntanlega boðið einsetta skóla, nokkurn veginn næga leikskóla og margvíslega aðra þjónustu, sem meirihluti kjósenda mun samkvæmt skoðanakönnunum taka fram yfir lægri útsvör. Þetta hefur magnað reiði forsætisráðherra.

Hækkendum útsvars mun reynast erfiðara að svara forustumönnum stéttarfélaga, sem finnst borgin hafna stuðningi við síðustu þjóðarsátt milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, er meðal annars fólst í 1% lækkun tekjuskattsins, sem rennur til ríkisins.

Sveitarfélögin neituðu raunar að taka þátt í þjóðarsáttinni og bera ekki ábyrgð á henni. Ef þau hækka útsvarið, baka þau sér því ekki annað en tímabundna reiði málsaðila hennar. Meirihlutinn í Reykjavík hyggst því standa af sér ásakanir ráðamanna stéttarfélaga.

Grunnskólarnir eru stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga, um 38% að meðaltali. Miklar launahækkanir kennara vega þyngst í hækkuðum fjárlögum sveitarfélaga milli ára. Þær voru upphafið að vangaveltum sveitarstjórnarmanna um hærri útsvör á næsta ári.

Þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna, voru samhliða færðar tekjur frá ríkinu til þeirra. Síðan reyndust sveitarfélögin vera veikari viðsemjandi á vinnumarkaði en ríkið hafði verið og sættu mun dýrari kennarasamningum en gert hafði verið ráð fyrir.

Sumir segja, að ríkið hafi svindlað kennurum upp á sveitarfélögin, og ráðamenn sveitarfélaga hafa heyrzt segja, að réttast væri að skila þeim aftur. Málsaðilar voru þó í góðri trú á sínum tíma og sveitarfélögin verða sjálf að axla ábyrgð af kjarasamningum sínum.

Fæst sveitarfélög eiga góðra kosta völ. Þau hafa áður fullnýtt útsvarsheimildir sínar og verða að draga saman framkvæmdaseglin eða halda áfram að safna skuldum að hefðbundnum hætti sveitarfélaga eða fara blandaða leið samdráttar og skuldaaukningar í senn.

Nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu höfðu svigrúm til að fara þriðju leiðinu og hækka útsvarið. Þau ætla ekki að notfæra sér svigrúmið, heldur reyna að skera niður útgjöldin. Reykjavík fer hins vegar léttu leiðina ljúfu og fórnar mestum hluta svigrúmsins.

Raunar gengur Reykjavíkurlistinn enn lengra með því að ráðgera að flytja eignarhluta rafmagnsveitunnar í Landsvirkjun yfir á borgarsjóð, þegar veitustofnanir borgarinnar verða sameinaðar í eina stofnun. Þetta lagar skuldastöðu borgarsjóðs bókhaldslega séð.

Fráleitt er að telja rekstur borgarinnar svo góðan, að ekki megi spara þar í stað þess að hækka útsvar og millifæra eignir. Fjárhagslegar aðgerðir meirihluta borgarstjórnar draga úr líkum á, að tekið sé í alvöru á rekstrarvandamálunum og eru því ámælisverðar.

Hinu er samt ekki að leyna, að Reykjavíkurlistinn mun sennilega græða á þessu að fjórum árum liðnum, þegar hann hrósar sér af þjónustu borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV