Auðlindir á Austfjörðum

Greinar

Málflutningur til stuðnings miðlunarlóni á Eyjabökkum hefur orðið einna brenglaðastur í blaðagrein á Austfjörðum, þar sem austfirzkum andstæðingum virkjunarinnar var legið á hálsi fyrir að vera kennarar og hafa atvinnu af að mennta Austfirðinga burt af svæðinu.

Greinarhöfundur og varaþingmaður Framsóknarflokksins var með þessu að segja, að skólanám væri skaðlegt á Austfjörðum, af því að það leiddi til, að unga fólkið á svæðinu öðlaðist menntun, sem gerði því kleift að brjóta af sér átthagafjötrana og flytjast af svæðinu.

Framsóknarmaðurinn var með þessu að gera nokkra kennara á Héraði ábyrga fyrir þeirri stefnu stjórnvalda, að allir Íslendingar skuli hafa sem jafnastan aðgang að menntun, hvar sem þeir búa á landinu. Sem slíkir væru kennararnir hættulegir austfirzkum hagsmunum.

Varaþingmaðurinn hélt áfram og málaði á vegginn eymd Austfirðinga, þegar þeir væru farnir að hafa atvinnu af auvirðilegri þjónustu við ferðamenn. Væntanlega telur hann Austfirðinga öðlast meiri reisn af að skarka með stöngum í bræðslupottum álversins.

Austfirðingar eiga mikla möguleika í ferðaþjónustu, einkum ef þeim tekst annars vegar að nýta nálægð sína við hafnir í Norðvestur-Evrópu og koma upp öflugri ferjusamgöngum og hins vegar að stöðva ferðamenn við að skoða fagra og merkilega staði í fjórðungnum.

Austfirðingar hafa þegar mikla atvinnu af ferðaþjónustu í fjórðungnum og hafa að undanförnu fest mikið viðbótarfé í gistihúsum. Þeir geta nýtt sér enn betur náttúrufegurð fjórðungsins og farið að leggja áherzlu á ósnortið víðerni á svæðunum inn til Vatnajökuls.

Þetta hefur verið og getur áfram verið traust þróun frá ári til árs. Hún veldur engum kollsteypum, en styður innviði Austfjarða, einkum þeirra sveitarfélaga, þar sem fólk áttar sig bezt á möguleikum ferðaþjónustu, sem getur innan tíðar orðið aðalatvinnugrein svæðisins.

Framkvæmdir við stóriðju og stór orkuver valda hins vegar snöggu umróti í fjórðungnum og miklum peningaflaumi, sem losar um fólk og fær það til að fljóta á brott eftir umrótinu og peningunum, þegar hvort tveggja streymir til framkvæmda í öðrum landshlutum.

Allar framkvæmdir, sem eru tímabundnar, eru að því leyti skaðlegar, að þær skilja eftir sig vandræði, þegar þeim er lokið. Sjálf orkuverin og iðjuverin þurfa lítinn mannskap til rekstrar, ekki nema lítið brot af þeim mannafla, sem vel skipulögð ferðaþjónusta þarf.

Sumir austfirzkir sveitarstjórnamenn sjá í hillingum tekjur af stóriðjuveri. Samt hafa þeir ekki tekið saman samanburð á þessum tekjum og tekjum af ótalmörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, til dæmis ekki tekjuvon af ferðaþjónustu á ósnortnum víðernum Austfjarða.

Til langs tíma litið verða Austfirðingar auðugri af ferðaþjónustu út um alla firði og dali en af álveri Norsk Hydro á Reyðarfirði. Sá auður mun koma jafnt og þétt og hlaða utan á sig á heilbrigðan hátt, en ekki koma í einu athafnastökki og fjara út í fámennum rekstri.

Ekki má heldur gleyma þeim innra auði, sem Austfirðingar munu sjálfir hafa af návist við og auðvelt aðgengi að ósnortnum víðernum, sem þingmaður þeirra, Hjörleifur Guttormsson, hefur rækilega lýst í bókum Ferðafélags Íslands. Sá auður verður lagður á vogarskálarnar.

Sem betur fer fjölgar ört þeim Austfirðingum, sem hafna ömurlegu svartsýnisrausi varaþingmanns Framsóknarflokksins og sjá birtuna af nýrri öld.

Jónas Kristjánsson

DV