Sautjándu aldar sérleyfi

Greinar

Útgáfa sérleyfa og einkaleyfa var algeng á Vesturlöndum á tímum forréttindastétta fyrir frönsku stjórnarbyltinguna. Á sautjándu öld voru tekjur af sérleyfum helzta tekjulind franska ríkisins. Með nýjum reglum um jafnræði borgaranna hurfu sérleyfin smám saman.

Afnám sérleyfa byggist á hagfræði og mannréttindum. Auðhyggja og markaðsbúskapur Vesturlanda segja það bezt til hagsældar, að frelsi leysi úthlutun leyfa af hólmi. Enn fremur er það pólitískur hornsteinn Vesturlanda, að allir séu borgarar og séu jafnir fyrir lögunum.

Innihald frönsku byltingarinnar og bandarísku stjórnarskrárinnar hefur í rúmar tvær aldir farið fram hjá Íslendingum, þótt við höfum tekið upp ytri form Vesturlanda. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra talar ekki um Íslendinga sem borgara, heldur sem þegna.

Þeir, sem nota orðið þegnar um ríkisborgara Íslands, eru ekki enn orðnir lýðræðissinnar að innræti. Þeir lifa enn í heimi forréttindastétta, sem tíðkuðust, áður en jafnræði borgaranna var hafið til vegs á Vesturlöndum. Þeir geta ekki leitt okkur götuna fram eftir vegi.

Ekki þarf að koma neinum á óvart, að ríkisstjórn Íslands er eina stjórnin á Vesturlöndum, sem á í útistöðum vegna tilrauna sinna til að vernda gömul sérleyfi og koma nýjum á fót. Hún er sautjándu aldar fyrirbæri, sem kærir sig hóflega um lýðræði né markaðsbúskap.

Ríkisstjórnin berst á tvennum vígstöðum um þessar mundir. Hún er að reyna að knýja fram sérleyfi í þágu bandarísks fyrirtækis til að reka víxltengdan gagnabrunn í heilbrigðismálum. Og hún er að reyna að snúa út úr Hæstaréttardómi um ólögleg sérleyfi í útgerð.

Ríkisstjórnin er ekki búin að bíta úr nálinni, þótt hún knýi fram gagnabrunns-sérleyfi og búi til sjónhverfingar í kringum útgerðar-sérleyfi. Það hamlar henni, að við búum við ytri form lýðræðis og jafnræðis og höfum þar að auki játast undir þau í fjölþjóðlegum sáttmálum.

Þegar Hæstiréttur hefur einróma samþykkt að segja A, er hann vís til að segja B. Dómurinn um aðgang að fiskimiðum snerist um kæru, sem beindist að fimmtu grein ólaga um stjórn fiskveiða. Aðrar kærur kunna að beinast að öðrum greinum þeirra, til dæmis sjöundu.

Að svo miklu leyti sem Hæstiréttur kann að víkja frá jafnræðisreglu þjóðskipulagsins höfum við öðlast góða reynslu af skjóli hjá fjölþjóðadómstólum úti í Evrópu. Það gildir bæði um frekari málaferli vegna sérleyfa í útgerð og vegna sérleyfis í rekstri gagnabrunna.

Ljóst er, að ballið er rétt að byrja, ef ríkisstjórnin og atkvæðavélar hennar á Alþingi reyna að snúa út úr dómi Hæstaréttar gegn sérleyfum í útgerð. Ekki er víst, að ríkisstjórnin ráði við afleiðingar tilrauna sinna til að vernda sautjándu aldar sérleyfi í aðgangi að útgerð.

Einnig má búast við, að ólögin um sérleyfi fyrir gagnabrunn bandarísks fyrirtækis muni verða kærð upp í Hæstarétt og áfram til Evrópu. Sérleyfishyggja stjórnvalda kann að verða orðin skattgreiðendum dýr, þegar ríkið er búið að greiða allar skaðabæturnar.

Ein þverstæðan í málinu er, að sennilega getur bandaríska gagnabrunnsfyrirtækið að afturkölluðu sérleyfi krafið ríkið um skaðabætur fyrir að hafa bakað fyrirtækinu kostnað með því að vekja væntingar, sem ríkið gat síðan ekki staðið við. Þannig borgar það tvisvar.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að velja til landsforustu sautjándu aldar sérleyfasinna, sem ekki skilja markaðshyggju og jafnræðishyggju Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV