Kvörnin malar hægt, en malar

Greinar

Merkasti fjölþjóðasáttmáli aldarinnar er fimmtíu ára í dag. Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur að vísu oftar verið brotinn en í heiðri hafður, meira þó á fyrri áratugum hans en hinum síðari. Hann er kvörn, sem malar afar hægt en örugglega.

Handtaka óbótamannsins Pinochets frá Chile er dæmi um, að mannréttindasáttmálinn sígur fram með vaxandi þunga. Helztu úrþvætti heimsins geta ekki lengur valsað um heiminn í skjóli valda sinna. Þeir eru komnir á flótta og hlaupnir í felur fyrir umheiminum.

Öldurnar frá mannréttindasáttmálanum eru meira að segja farnar að ná til Íslands, þar sem Hæstiréttur er fyrir erlend áhrif farinn að dæma með lítilmagnanum gegn ríkisvaldinu. Dómurinn í kvótamálinu segir þann einfalda hlut, að allir skuli jafnir fyrir lögunum.

Settir hafa verið upp sérstakir dómstólar fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Bosníu og Rúanda. Nú síðast hefur verið komið á fót heildardómstóli fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu hvar sem er í heiminum. Kvörnin malar hægt, en hún malar.

Nýlega var gripinn stjórnandi stríðsglæpanna í Srebrenica og færður til dómstólsins í Haag. Hringurinn fer að þrengjast um Mladic og Karadzic og kannski verður sjálfur Milosevic tekinn að lokum. Allt væri þetta óhugsandi nema vegna svipu mannréttindasáttmálans.

Tyrkir komast ekki inn í vestrænt samfélag, af því að þeir falla á mannréttindabrotum sínum. Þeim hefur ekki tekizt að leysa sérþarfir Kúrda á sama hátt og Spánverjar eru að leysa sérþarfir Baska og Katalóna, og Bretar eru farnir að reyna að leysa sérþarfir Norður-Íra.

Vestrænu skilaboðin til Tyrkja hafa verið og eru skýr. Fallið frá mannréttindabrotum ykkar og við tökum ykkur fagnandi inn í vestrænt samfélag og gerum ykkur ríka. Þetta gerðum við gagnvart bláfátækum Spánverjum, þegar þeir vörpuðu af sér hlekkjum Francos.

Eitt merkasta afkvæmi mannréttindasáttmálans er Helsinki-yfirlýsingin, þar sem Sovétríkin féllust á mannréttindi. Það var upphafið að endalokum hins illa heimsveldis, frelsun Austur-Evrópu og inngöngu hennar í vestrænt samfélag velmegunar og velferðar.

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur getið af sér fjölmarga viðbótarsáttmála, þar sem farið er nánar ofan í einstök atriði sáttmálans, og ýmsa svæðisbundna sáttmála, þar sem hnykkt er á honum. Lengst hefur þessi þróun komizt í Vestur-Evrópu.

Bandaríkin hafa setið eftir í þessari þróun. Þegar kvartað er yfir mannréttindabrotum valdhafa í þriðja heiminum, vísa þeir ævinlega og jafnharðan til skráðra mannréttindabrota í Bandaríkjunum. Það hamlar þróuninni, að sjálft heimsveldið skuli sitja eftir.

Bandaríkin eru til dæmis eitt fárra ríkja, sem ekki eru aðilar að nýja, alþjóðlega mannréttindadómstólnum. Það rýrir gildi dómstólsins og er um leið niðurlæging fyrir Bandaríkin, sem mega gæta sín að einangrast ekki í fjölþjóðastjórnmálum með Ísraels-æxlið á bakinu.

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur í fimm áratugi og er enn rægður af harðstjórum þriðja heimsins. Þeir skjóta sér á bak við meintar íslamskar eða asískar hefðir, þar sem mannréttindi eru ekki eins ofarlega á blaði. Þessar meintu hefðir eru tilbúnar.

Mannréttindi eru algild, stangast ekki á við Múhameð eða Konfúsíus. Mannkyni öllu mun vegna því betur sem mannréttindasáttmálinn er betur í heiðri hafður.

Jónas Kristjánsson

DV