Tæknidómur eða efnisdómur

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að túlka veiðiréttardóm Hæstaréttar svo þröngt, að hann hafi eingöngu fjallað um lagatæknilegt atriði, en ekki efnislega um jafna stöðu borgaranna fyrir lögunum. Þar með hafi öll umræðan um dóminn verið stormur í vatnsglasi.

Um leið segir ríkisstjórnin óbeint, að ýmsar hugleiðingar í dómnum um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi séu óviðkomandi niðurstöðunni og hafi dottið þar inn fyrir einhvern misskilning eða óra. Enda hafa helztu ráðherrarnir fjallað um Hæstarétt sem moðhaus.

Raunar sagði utanríkisráðherra, að svo gæti farið, að breyta þyrfti stjórnarskránni, ef dómur Hæstaréttar fæli í sér þá efnislegu niðurstöðu, að óheimilt væri að úthluta auðlindum hafsins til lokaðs hóps. Væntanlega þarf þá að taka úr henni mannréttindaákvæðin.

Til þess að þurfa ekki að breyta stjórnarskránni til að verja gjafakvótakerfið hefur ríkisstjórnin ákveðið að segja okkur, að það sé í rauninni allt í lagi með dóminn. Hæstiréttur hafi bara verið að gamna sér við lagatæknilegt atriði og farið um leið ógætilega með orð.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórn, sem svo hastarlega varðveitir ókeypis einkaleyfi til fiskveiða, skuli berjast ákaft fyrir nýju einkaleyfi til smíða og reksturs gagnagrunns og vera að undirbúa þriðja einkaleyfið til leitar og rannsókna á örverum á háhitasvæðum.

Öll þessi mál falla í farvegi sameinaðrar hugsjónar stjórnvalda og gæludýra þeirra um að taka sameiginleg verðmæti þjóðarinnar og ráðstafa þeim í þágu gæludýranna, hvers eðlis sem þessi verðmæti eru. Þetta getur ekki verið annað en hreint hagsmunabandalag.

Ríkisstjórnin áttar sig á, að með lagafrumvarpinu er hún að kalla á ný málaferli, sem munu enda í Hæstarétti, er verður að ákveða, hvort hann hafi sjálfur rambað ógætilega í orðavali um lagatæknilegt atriði eða hafi verið að fjalla um efnisatriði málsins.

Í versta falli vinnur ríkisstjórnin tíma fram yfir kosningar, því að tefja má nýju málin nógu lengi til að ekki verði dæmt í þeim í Hæstarétti fyrr en á næsta hausti. Um framhaldið má nota gömul einkunnarorð stjórnmálamanna um, að komi tímar, komi ráð.

Eftir frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á margumtalaðri fimmtu grein laganna um stjórn fiskveiða er ljóst, að engu verður að sinni breytt í þeim atriðum, sem mestum átökum hafa valdið í þjóðfélaginu. Slíkt verður að bíða nýrrar dómsniðurstöðu.

Jafnframt heldur lífið áfram. Menn geta á meðan haldið áfram að rífast um, hvort það sé í samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og sáttmála, sem ríkið hefur gert á fjölþjóðavettvangi, að réttur til veiða í sameiginlegri auðlind sé afhentur þröngum hópi.

Á annarri síðu DV í gær fjölluðu þrír kunnir lögmenn um dóminn og lagafrumvarpið, einn sem styður ríkisstjórnina og tveir, sem telja Hæstarétt hafa verið að fjalla um efnisatriði. Í þessum þremur viðtölum kristallast sjónarmiðin, sem til umræðu eru í málinu.

Einn þremenninganna er Hörður Einarsson, sem sagði nýlega í blaðagrein, að vandinn gæti ekki falizt í mannréttindum, heldur í forréttindum. “Þegar lögbundin forréttindi stangast á við stjórnarskrárbundin mannréttindi, hljóta forréttindin að víkja”, sagði Hörður.

Tímans straumur er hægur, en þungur. Með skipulegu andófi mun ríkisstjórninni aðeins takast að tefja en ekki að hindra framgang mannréttinda

Jónas Kristjánsson

DV