Vestræn þrískipting valdsins

Greinar

Þrískipting valdsins hefur að mestu verið marklítið form hér á landi, innflutt frá vestrænum þjóðum, sem fyrir tveimur öldum töldu sig þurfa að gera upp reikningana við forréttindastéttir sínar. Hún var þar vel heppnuð tilraun til að hindra handhafa framkvæmdavaldsins í að ná alræðisvaldi í þjóðfélaginu.

Hér hafa löggjafarvaldið og dómsvaldið verið minni máttar í samskiptum við framkvæmdavaldið, bæði embættismenn og ríkisstjórn. Alþingi hefur afgreitt lagafrumvörp úr ráðuneytum á færibandi og dómstólar hafa jafnan dregið taum framkvæmdavaldsins.

Þótt innihald valddreifingar hafi verið svona slappt, hefur formið verið harðara. Meðal annars er Hæstarétti skylt að standa vörð um stjórnarskrána í úrskurðum sínum, þegar ráðherrar láta atkvæðavélar sínar á Alþingi samþykkja lög, sem brjóta gegn henni.

Þetta hefur skyndilega breytzt. Hæstiréttur hefur úrskurðað, að afgreiðsla ráðuneytis á máli hafi verið röng, af því að lögin, sem afgreiðslan byggðist á, hafi strítt gegn stjórnarskránni. Þetta hefur glætt vonir um, að Ísland sé farið að feta sig í átt til vestrænna ríkja.

Orsök stefnubreytingar Hæstaréttar kemur að utan. Með aðild okkar að fjölþjóðlegum samtökum og sáttmálum, einkum á vettvangi Evrópu, höfum við meðal annars skuldbundið okkur til að fylgja ákveðnum forsendum og að hlíta úrskurðum af þeim vettvangi.

Þetta hefur á síðustu árum leitt til þess, að einstaklingar, sem telja sig ekki hafa náð réttlæti hjá íslenzkum dómstólum, hafa sótt mál sín til evrópskra dómstóla og unnið þau. Þar með hefur Hæstiréttur orðið sér til minnkunar, sem hann sættir sig ekki lengur við.

Dómur Hæstaréttar í kvótamálinu bendir til, að hann hafi ákveðið að læra af biturri reynslu allra síðustu ára og fara að taka meira tillit til hinnar vestrænu stjórnarskrár okkar, þótt það kunni að espa einræðisherra í ríkisstjórnum og atkvæðavélar þeirra á Alþingi.

Í kjölfar úrskurðarins hefur Hæstiréttur mátt sitja hljóður undir margendurteknum dónaskap einræðishneigðra ráðherra, sakaður um þokukennda röksemdafærslu, niðurrifsstarfsemi, efnahagsleg hryðjuverk, fjarlægð frá veruleikanum og tilraun til valdaráns.

Ekki stenzt ein einasta af ásökunum ráðherra í garð Hæstaréttar. Þau vandræði, sem nú hafa skapazt, eru ekki afleiðing úrskurðarins, heldur hinnar undarlegu túlkunar, sem felst í nýju lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er hún, sem er hryðjuverkamaðurinn.

Ríkisstjórnin gat lagt fram frumvarp með nýju skömmtunarkerfi aðgangs í takmarkaða auðlind, sem ekki bryti gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Þar með hefði kúrsinn verið leiðréttur, lögin samræmd stjórnarskránni og fiskistofnanir varðveittir.

Með því að ögra Hæstarétti með frumvarpi, sem engu breytir efnislega, framleiðir ríkisstjórnin vandræði. Þau leiða til málaferla, sem vafalaust enda í Hæstarétti og síðan áfram úti í Evrópu, ef einræðishneigðum ráðherrum tekst að kúga Hæstarétt til undirgefni.

Stjórnvaldskreppunni linnir ekki fyrr en stjórnarflokkarnir ná annaðhvort nægu meirihlutafylgi til að breyta stjórnarskránni í þágu gæludýra sinna og segja um leið skilið við vestrænt samfélag eða sætta sig við þrískiptingu valdsins og vestrænar leikreglur.

Þetta uppgjör getur tekið langan tíma. Það er eigi að síður nauðsynlegt og leiðir vonandi á endanum til þess, að Íslandi verður tryggt sæti í vestrænu samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV