Því meira eru þeir eins

Greinar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Á næsta Alþingi að hausti verður að nýju komið hefðbundið fjögurra flokka kerfi eftir tímabundnar gælur þjóðarinnar við fimm og sex flokka kerfi. Þetta er ein merkasta niðurstaða skoðanakönnunar DV.

Það er seigla í gömlum mynztrum stjórnmálanna. Ný framboð hafa risið og hnigið og stöku sinnum haldizt á floti í nokkur kjörtímabil. Gömlu stjórnmálaöflin eiga góða og slæma daga í kosningum, en til langs tíma litið verður þeim ekki haggað að neinu ráði.

Sjálfstæðisflokkurinn er með öflugasta móti um þessar mundir. Hann hefur meira fylgi í skoðanakönnuninni en í hliðstæðum könnunum á svipuðu stigi í fyrri kosningabaráttum. Þótt hann nái ekki hreinum meirihluta í vor, er fátt, sem getur hindrað mikinn sigur hans.

Í sömu könnun kemur í ljós eindregin andstaða kjósenda gegn viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar hans í kjölfar kvótadóms Hæstaréttar. Þótt kjósendur séu andvígir helzta máli flokksins eru þeir meira en lítið fúsir til að styðja hann í kosningum.

Þorri íslenzkra kjósenda lítur ekki á það sem hlutverk sitt að fylgja eftir málefnum. Þeir óttast jafnvel, að málefni geti spillt fyrir þeirri fagmennsku, sem felst í að halda þjóðarskútunni í lygnum sjó góðæris. Kjósendur vilja ekki láta hugmyndafræðinga stjórna sér.

Framsóknarflokkurinn er með veikasta móti um þessar mundir, svo sem hefðbundið er, þegar hann hefur lengi verið í helmingaskiptastjórn með Sjálfstæðisflokki. Hann mun bíða ósigur í kosningunum, en ekki nógu mikinn til að segja skilið við stjórnarsamstarfið.

Eftir miklar hrókeringar stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar hefur risið svipað mynztur og í flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Við fáum breiðan krataflokk samfylkingarinnar og hreinan græningjaflokk, þann síðarnefnda með svipuðu fylgi og í nágrannaríkjunum.

Græn framboð með 5­8% fylgi hafa rutt sér til rúms víða um Evrópu á síðustu árum í kjölfar meiri áhuga meðal kjósenda á sjálfbærri umgengni fólks við umhverfið og aukinnar tilfinningar margra þeirra fyrir ýmsum verðmætum, sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Íslenzkir kratar sameinaðir verða hins vegar veikari en trúbræður þeirra í nálægum ríkjum, enda er illt að afla trausts kjósenda í kjölfar langvinns skæklatogs um prófkjörsreglur. Kratar gera ekki meira að þessu sinni en að ná sögulegum sáttum innan sinna vébanda.

Sögulegu sættirnar eru aðgerð inn á við. Þær eru sagnfræðilega mikilvægar, en gera samfylkinguna tímabundið ófæra um að taka þátt í stjórnmálum út á við. Þegar líður á næsta kjörtímabil, kunna kratar að ná vopnum sínum og eyrum kjósenda á nýjan leik.

Skoðanakönnunin sýnir, að loksins hafa síðustu kjósendur Alþýðuflokks og Alþýðubandalags áttað sig á, að þessir flokkar eru ekki lengur í framboði. Þeir eru horfnir af sjónarsviði kjósenda eins og frjálslyndu flokkarnir tveir, sem ekki munu ná manni inn á þing.

Hafa má til marks um þverstæður íslenzkra stjórnmála, að ekki tekst að ná saman trúverðugum flokki til stuðnings því hugsjónamáli, sem þjóðin styður eindregið og stjórnarflokkarnir hafna eindregið, það er að segja endurheimt þjóðareignar úr höndum sægreifa.

Eftir kosningarnar munum við búa við hefðbundið fjögurra flokka kerfi, sumpart undir nýjum fánum. Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV