Caruso

Veitingar

Þvert á íslenzka veitingahefð hefur hinn rustalega notalegi Caruso batnað og orðið ódýrari með aldrinum. Í verði og gæðum er hann kominn í hóp annarra hálfítalskra veitingastaða borgarinnar, Pasta Basta og Ítalíu, sem eru á sömu slóðum í miðbænum.

Þetta er groddastaður að umbúnaði. Setið er á sæmilegum málmstólum á viðargólfi við vönduð tréborð, dúklaus. Í hálfrökkrinu má greina hvíta veggi, rauðan múrstein og brún burðarvirki. Þægilegast og bjartast er að sitja í viðarskálanum úti við Bankastræti, þar sem hægt er að lesa matseðilinn við birtu frá götuljósunum.

Verðið er íslenzkur miðlungur, 3.700 krónur fyrir þríréttað með kaffi og í hádeginu tvenns konar val tvíréttað fyrir 990 krónur. Fyrir þetta fáum við óskólagengna þjónustu vinsamlega, þunnar pappírsþurrkur og smjör í álpappír, svo og jöklasalat og alfaspírur sem staðlað hrásalat með nánast öllum forréttum og eftirréttum.

Matreiðsluhefðin er að grunni ítalskrar ættar, með rísottum, pöstum og pítsum, en gælir eindregið við íslenzkan hvítlauksbrauða-smekk skyndibitafólks. Sjálf matreiðslan er hin sterka hlið staðarins, fremur traust og fyrirsjáanleg og einstaka sinnum áhugaverð, einkum í ítölskum hrísgrjónaréttum og grænmetissúpum, en síður í íslenzkum fiskréttum.

Beztir voru forréttir, svo sem magnað sjávarrétta-risotto með hörpufiski, rækjum, sveppum og lauk. Einnig ítölsk og tær grænmetissúpa með agnarsmáum grænmetisteningum, fjölbreyttum að lit, skemmtilega fram borin í víðri og pottlaga skál.

Bragðgóðir voru fylltir sveppahattar með miklum gráðaosti, eldaðir í hvítlaukssmjöri. Sama er að segja um matarmikið hrásalat kokksins, með stórum rækjum, eggjabitum, feta-osti, tvenns konar ólífum og þurrkuðum tómötum, svo og sinnepssósu til hliðar.

Spaghetti carbonara var eins og við mátti búast, ítalska útgáfan af eggjum og beikoni engilsaxa. Beikonvafin hörpuskel með sýrðum hvítlauksrjóma var meyr og fín, borin fram með ágætlega sveppablönduðum hrísgrjónum. Fiskitvenna var of mikið elduð, ýsan meira en laxinn, borin fram með sterkri gráðaostsósu og seigri kartöflu, upphitaðri.

Lambafillet var léttsteikt, smurt sinnepi og borið fram með maukgrillaðri kartöflu í stökku hýði og harðsteiktum, ostfylltum chili-pipar, eins konar mexíkönsku quesadilla.

Mjúk gulrótarterta með rjómaostsósu var bragðgóð, sem og hvítt súkkulaðifrauð á hindberjasósu. Espresso-kaffi var oftast gott, en einu sinni einkennilega þunnt, líklega úr röngum baunum.

Þótt Caruso sé frambærilegur, á hann það sammerkt með ótal öðrum matsölustöðum borgarinnar, að fyrir svipað verð er betra að borða á Primavera eða Tjörninni.

Jónas Kristjánsson

DV