Ekki er sopið kálið í ausu Kára

Greinar

Pyrrhus kóngur í Epírus komst að raun um, að kálið er ekki sopið, þótt í ausuna sé komið. Hann vann hverja orrustuna á fætur annarri, en tapaði samt stríðinu. Hvenær sem hann hafði sigur, mögnuðu Rómverjar gegn honum nýja herflokka og ný vandræði.

Sigur bandaríska fyrirtækisins deCode Genetics á Íslendingum er ekki fyllilega í höfn, þótt stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi á Alþingi knúið í gegn lög um einkarétt fyrirtækisins á fjölvíðum gagnagrunni heilbrigðismála.

Stofnað hefur verið félag til að kynna þjóðinni, hvernig menn geti á einfaldan hátt komið í veg fyrir, að nafn þeirra og kennitala komist inn í fjölvíðan gagnagrunn Stóra bróður í Delaware og til að fylgjast með aðgerðum Landlæknis til að virða vilja þessa fólks.

Undirróður af þessu tagi fær stöðuga næringu frá umræðunni úti í heimi, sem haldið hefur áfram, þótt málinu sé formlega lokið hér á landi. Eitt mesta áfall gagnagrunnsmanna er grein í New York Times eftir fremsta erfðafræðing heims, Lewontin í Harvard.

Það verður hvellur í Harvard og vísindaheiminum almennt, þegar búið er að þýða á ensku, að forstjóri deCode Genetics telur Lewontin vera þekktan öfgamann og strengbrúðu íslenzks fræðimanns. Hætt er við, að þetta magni enn frekari vandræði úti í heimi.

Gagnagrunnur deCode Genetics er orðinn að meiri háttar umræðuefni í ýmsum þekktustu prentfjölmiðlum heims, New York Times og Washington Post, Le Monde og The New Yorker, Newsweek og Guardian. Að meðaltali er umræðan gagnagrunninum stórlega í óhag.

Hvorki umræðan í heild né grein Lewontins sérstaklega er móðgun við Íslendinga, þótt Kári Stefánsson haldi slíku fram. Móðgunin er eldri og felst í samþykkt gagnagrunnslaganna á Alþingi. Öll umræðan síðan í útlöndum er ekki annað en eftirmáli við móðgunina.

Á liðnu hausti risu vonir um, að sættir mundu takast í gagnagrunnsmálinu um brottfall sérleyfis og aukna persónuvernd. En deCode Genetics og umboðsmenn þess í landsstjórninni vildu, þegar á reyndi, ekki sætta sig við annað en fullan sigur í frumvarpsbardaganum.

Þegar valtað er yfir andstæðinga eins og gert hefur verið í gagnagrunnsmálinu hér á landi, er ekki auðvelt að meta, hvort sigurinn er varanlegur eða aðeins stundarfriður. Eftir sigra í orrustum í Heraclea og Asculum varð Pyrrhus að bíða lægri hlut í Beneventum.

DeCode Genetics hefði grætt mikið á að fara með löndum í málinu, fallast á tilgangsleysi sérleyfisins og samþykkja harðari persónuvernd. En forstjórinn vildi ekki annað en fullan sigur og þarf því að sæta linnulausri andstöðu þeirra, sem hann valtaði yfir.

Það eru fleiri seigir en Rómverjar. Svo er um þá, sem standa í Mannvernd að baki Sigmundi Guðbjarnasyni, fyrrum háskólarektor. Svo er einnig um þá, sem standa í Harvard að baki Lewontin erfðafræðingi. Svo er einnig um stóru alvörufjölmiðlana úti í heimi.

Það er hægt að hafa ráðamenn Íslands og meirihluta Íslendinga að fífli. Það er hægt að halda fram hverju sem er í deilum innan okkar vasaútgáfu af þjóðfélagi foringjadýrkunar. En það er ekki hægt að hafa alla Íslendinga að fífli og enn síður frjálsa umheiminn.

Forstjóri deCode Genetics í Delaware þarf sífellt að ná vopnum sínum og á af ýmsum slíkum ástæðum erfitt með að súpa kálið, sem komið er í ausu hans.

Jónas Kristjánsson

DV