Ímynduð álver eru góð álver

Greinar

Ímyndað álver Norsk Hydro á Reyðarfirði gegnir sama hlutverki í stórhuga sjónhverfingum ráðherranna Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar og ímyndað álver Atlantsáls, sem aldrei birtist á Keilisnesi, gegndi í sjónhverfingum ráðherrans Jóns Sigurðssonar.

Í báðum tilvikum er þingmaður að reyna að afla sér fylgis í kjördæmi sínu og iðnaðarráðherra að reyna að bæta við afrekaskrána. Jón Sigurðsson gegndi báðum hlutverkunum, en hinir gegna hvor sínum hluta þess, Halldór fyrir austan og Finnur í ráðuneytinu.

Munur málanna tveggja er, að ráðamenn Atlantsáls sögðu jafnan ja og humm, ef þeir voru spurðir, en ráðamenn Norsk Hydro segja nei og humm, ef þeir eru spurðir. Fyrir löngu er orðið ljóst, að ráðamenn Norsk Hydro hafa engan áhuga á reyðfirzku álveri.

Halldór er lentur í þeirri lítt öfundsverðu stöðu að reyna að túlka nei og humm Norsk Hydro sem ja og humm fyrir umbjóðendum sínum fyrir austan. Hann lýsir stefnu Norsk Hydro sem eins konar sjávarföllum, þar sem stundum komi flóð með gæs í öldufaldinum.

Til skamms tíma lék enginn vafi á, að þeir félagar mundu undir vorið framleiða ímyndun nýs flóðs með gæs, sem grípa megi, ef verða mætti til þess að hjálpa mönnum til að ákveða sig í kjörklefanum. Nú er komið babb í bátinn, því að þjóðarviljinn er að snúast.

Komið hefur í ljós, að meirihluti þjóðarinnar og stór minnihluti Austfirðinga vill ekki uppistöðulón á Eyjabökkum. Þar að auki hefur verið sáð efasemdum hjá Austfirðingum um gagnsemi fámenns álvers, sem gæti skaðað aðra og meiri atvinnuhagsmuni á svæðinu.

Eins og Steingrímur Hermannsson lýsti á flokksþingi Framsóknar í nóvember þá er lítill skilningur á umhverfismálum í þeim flokki. Könnun sýnir, að Framsóknarflokkurinn er eini flokkur landsins, þar sem meirihluti er enn fyrir uppistöðulóni á Eyjabökkum.

En framsóknarmenn eiga auðvelt með að skipta um skoðun. Utanríkisráðherra er byrjaður að gefa í skyn, að virkja megi fyrir austan án miðlunarlóns við Eyjabakka. Og upp úr skúffu hefur Landsvirkjun dregið áætlun um miðlun við Kárahnjúka í stað Eyjabakka.

Forsætisráðherra hefur skotið inn í umræðuna skondinni hugmynd um, að nýtt umhverfismat megi fara fram á Eyjabökkum, ef firð verður í áhuga Norsk Hydro, en ekki ef flóð verður í áhuganum. Nei og humm þýðir umhverfismat og ja og humm þýðir ekki umhverfismat.

Samkvæmt þessari hugmynd fer það ekki eftir málefnalegum aðstæðum á Eyjabökkum sjálfum, hvort þar fer fram nýtt umhverfismat, heldur eftir aðstæðum hjá fyrirtæki úti í Noregi. Þetta sýnir stöðu umhverfismála í virðingarstiga áhugamála forsætisráðherrans.

Smám saman eru mál að falla í þann farveg, að herkostnaður umhverfisverndar verði tekinn inn í stórvirkjanakostnað sem eðlilegur þáttur hans. Þegar loksins verður virkjað fyrir austan, verður almennt talið sjálfsagt að varðveita mikilvægar náttúruvinjar.

Einu sinni töluðu verkfræðingar í alvöru um að virkja mætti Hvítá framhjá Gullfossi og hleypa síðan vatni á fossinn fyrir ferðamenn á sunnudögum. Til skamms tíma töluðu menn af sama bjánaskap um Dettifoss. Nú er hins vegar farið að fjara undan slíkum skoðunum.

Ímynduð álver á Keilisnesi og í Reyðarfirði eru líklega orðin beztu álverin, þau sem hafa þann eina tilgang að sýna kjósendum, að ráðamenn séu í vinnunni.

Jónas Kristjánsson

DV