Samfylking eðalkratans

Greinar

Alþýðuflokkurinn gleypti Alþýðubandalagið og Þjóðvaki gleypti Alþýðuflokkinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þjóðvaki er kominn heim og raðaði sér í efstu sæti framboðslistans, en Alþýðubandalagið staðfesti, að það er að niðurlotum komið í pólitík.

Nú kljúfa forverar Alþýðubandalagsins ekki lengur Alþýðuflokkinn og skipta um nafn. Alþýðuflokkurinn hefur snúið taflinu við, klýfur Alþýðubandalagið og skiptir um nafn. En hann er áfram Alþýðuflokkurinn og hefur valið sér týnda eðalkratann í efsta sæti framboðslistans.

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan forustu eina eðalkratans í þingmannssætum listans, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var um tíma hrakin úr áttavilltum flokki sínum, en beið síns tíma og er nú komin heim með feiknarlegt fylgi og pálmann í höndunum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur reynzt öðruvísi en aðrir stjórnmálamenn íslenzkir. Hún er málefnaföst fremur en samningalipur. Sem ráðherra tók hún ekki þátt í lúxusleikjum kolleganna. Sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar mun hún egna ferska storma gegn ládeyðunni.

Fyrirhuguð formennska Margrétar Frímannsdóttur í Samfylkingunni er snögglega úr sögunni. Jóhanna Sigurðardóttir er hinn raunverulegi leiðtogi, enda mun væntanlegt prófkjör í Reykjaneskjördæmi staðfesta, að Alþýðuflokkurinn er allsráðandi í Samfylkingunni.

Alþýðubandalagið hefur raunar átt erfitt með að manna sæti sín á sumum framboðslistum Samfylkingarinnar í öðrum kjördæmum. Og væntanlegir þingmenn úr röðum flokksins munu sóma sér vel í útvíkkuðum Alþýðuflokki undir róttækri forustu Jóhönnu.

Með prófkjörinu er Alþýðuflokkurinn loksins kominn heim til sín sem eðalkrataflokkur Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann verður að vísu að skipta um nafn og kalla sig Samfylkingu jafnaðarmanna til að minna á, að hann sé breiðfylking íslenzkrar stjórnarandstöðu.

Þótt margir Alþýðubandalagsmenn séu ósáttir við útkomuna og sumir þeirra hverfi á vit annarra framboða, er ljóst, að prófkjörið í Reykjavík markar þau tímamót, að samfylkingin er ekki lengur höfð að háði og spotti og getur farið að afla sér fylgis óákveðinna kjósenda.

Fram að prófkjörinu birtist samfylking jafnaðarmanna almenningi sem hópur hagsmunagæzlufólks, sem þjarkaði endalaust um hólf og sæti á framboðslistum. Nú er það svartnættisskeið að baki. Samfylkingin er komin með kunnuglegan svip, sem getur aflað fylgis.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja gjarna halda áfram samstarfi sínu eftir kosningar. Eftir prófkjörið í Reykjavík er útvíkkaði krataflokkurinn undir stjórn Þjóðvaka orðinn að sterkri stjórnarandstöðu, sem hefur burði til að velgja ríkisstjórninni undir uggum.

Ekki er enn hægt að sjá, hvort samfylking jafnaðarmanna verður að hliðstæðu afli og jafnaðarflokkar víða um Vestur-Evrópu. Fyrir prófkjör var tómt mál að tala um slíkt, en nú er skyndilega unnt að leika sér að hugmyndum um eitthvert slíkt ferli hér á landi.

Fá eða engin dæmi þess eru hér, að eitt prófkjör valdi slíkum straumhvörfum sem þetta. Fyrirfram var vitað, að í því mundi felast sögulegt uppgjör tveggja stjórnmálaflokka um arfleifð upphaflega Alþýðuflokksins, en útkoman var eindregnari en menn bjuggust við.

Alþýðuflokkurinn hefur gleypt Alþýðubandalagið og Þjóðvaki hefur gleypt Alþýðuflokkinn. Til valda í samfylkingunni hefur brotizt sjálfur eðalkratinn.

Jónas Kristjánsson

DV