Austur-Indíafélagið við hlið Regnbogans við Hverfisgötu er bezti matstaður austrænnar matargerðar hér á landi, snyrtilegur staður með kórréttri, en tilþrifalítilli matreiðslu, sem stundum á það til að láta þurran Tandoori-kjúkling frá sér fara.
Tandoori-kjúklingur er kryddleginn í jógúrt og karríi áður en hann er bakaður í leirofni, einkennisréttur norðurhéraða Indlands. Hann er bragðljúfur, en nýtur sín ekki, nema hann sé meyr, sem á að vera auðvelt. Þeim mun meiri eru vonbrigðin, þegar þetta bregzt.
Flest annað var gott, til dæmis meyr og bragðsterkur Bagdað-kjúklingur í kókossósu með döðlum og þurrkuðum ávöxtum, sem gáfu réttinum sætubragð, bezti aðalrétturinn. Skemmtilega eldsterkt var Vindaloo-lambakjöt frá Goa með kartöflum og tómötum, einn þekktasti réttur suðurhéraða Indlands.
Papad eða Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, fóru vel við Raita, ídýfu úr sýrðum rjóma og smásaxaðri gúrku. Einnig hæfðu þær þrenns konar sultu, mildri úr koríander, sterkri úr tamarind og millisterkri úr lauk.
Chiche Sheeh Kabab var nafn á aflangri, mjúkri og bragðgóðri kjúklingapylsu, kryddaðri með engifer, hvítlauk og koríander, borin fram með paprikuþráðum í sérstakri skál. Bezti forrétturinn voru djúpsteiktar pagórur úr söxuðum lauk og léttkrydduðu kjúklingabaunadeigi, bornar fram með mildri koríander-sultu.
Smáatriðin voru flest vönduð. Nan-brauð var bakað á staðnum, þynnra og betra en það, sem selt er í stórmörkuðum. Pulao-hrísgrjón voru hæfilega elduð. Hins vegar fólst grænmeti dagsins í ómerkilegum, sykurbrúnuðum kartöflubitum. Indverskt kaffi var gott, með kardimommukeim.
Matsalurinn er léttari og bjartari en áður, enda hefur verið dregið frá gluggum. Slæðubreiður eru enn í lofti, en skipt hefur verið um indverskar veggskreytingar til bóta, málverk og tréstyttur. Húsbúnaður er vandaður, einkum renndir tréstólar, fínt parkett og ljósir viðarbásar á miðju gólfi. Kuldalegar glerplötur eru enn á borðum, blúnduþurrkur eru úr taui.
Austur-Indíafélagið er staður meðalverðs. Aðalréttir kosta um 1700 krónur og þríréttað með kaffi kostar 3200 krónur. Staðurinn er eingöngu opinn á kvöldin.
Þjónusta var góð, en umbúnaður hennar lakari en áður. Heitir andlitsdúkar komu ekki lengur eftir mat og reikningurinn var handskrifaður. Róandi indversk músík var, þegar við komum, en vestræn graðhestamúsík, þegar við fórum.
Jónas Kristjánsson
DV