Perlan

Veitingar

Dýrasti og glæsilegasti veitingasalur landsins býður vandaða, en gerilsneydda matreiðslu. Engir dagsréttir eru á stuttum matseðli Perlunnar, ekki einu sinni fiskur dagsins, enda mundu frávik sennilega trufla einbeitingu í eldhúsi. Í flókinni matreiðslu er lögð meiri áherzla á glæsibrag en bragðgæði. Sumir forréttir og eftirréttir eru listaverk að útliti, en að öðru leyti ekki minnisstæðir.

Karíbahafssalat var fagurt blaðsalat, allt of mikið sítrónuvætt, með góðri mangó- og lárperublöndu í sérstakri skál. Meyrar og bragðgóðar andabringu-ræmur voru bezti forrétturinn, klæddar sesamfræjum, bornar fram í spínati, sem virtist sykrað. Gulrótakæfa með karsa, graslauk og sýrðum rjóma var mild og hlutlaus.

Góður var grillaður barri, en skorti eðlisbragð, borinn fram á pönnuköku, með fyrirtaks humri og ágætum villispergli. Risahörpuskel var eins góð og annars staðar, með bragðsterku grænmetismauki. Vel heppnaður var ofnbakaður eldislax undir spergilþaki, borinn fram með mildri engifersósu.

Lambahryggvöðvi var ekki eins léttsteiktur og sagt var á matseðli, of mikið kryddaður og ekki nógu meyr, með steiktum grænmetisteningum, sveppum og sinnepsblandaðri rósmarínsósu. Andakjöt var gott, enda einfalt, með grænpiparsósu, andalifur og mauki mangós og epla.

Vel heitt crème brûlèe var óvenjulega gott, með þunnri skorpu og ekki of harðri. Heitt súkkulaðifrauð var bragðsterkt, fallegt og gott, með chartreuse-líkjör og vanillukremi. Mangó-krapís var sterkur og góður. Of eindregið sítrónubragð var að sítrónutertu. Kaffi var fyrsta flokks, bæði pressukaffi og espresso.

Öguð og fumlaus þjónusta veit nákvæmlega hver pantaði hvað, bezta þjónusta í landinu, laus við óþarfa afskiptasemi eða ótímabærar spurningar, sem tröllríða íslenzkum veitingahúsum. Volgir dúkar komu eftir aðalrétt. Þjóðleg og rómantísk tónlist var of hávær á köflum. Vínlisti er fjölbreyttur og svo vandaður, að húsvínið er fyrsta flokks.

Perlan er heljarmikið og yfirþyrmandi geimskip, glæsilegt leiksvið, þar sem góðærismenn og erlendir gestir þeirra borða þríréttað með kaffi fyrir 4.700 krónur á mann, áður en kemur að víni. Út um raufar milli gildvaxinna gluggapósta má sjá borgarljós, sem minna fremur á stjörnuþokur en sorg og gleði borgarlífsins. Þetta er ekki útsýnisstaður, heldur magnaður innsýnisstaður, griðastaður þeirra, sem næga hafa seðlana.

Jónas Kristjánsson

DV