Landvinningar Reykjavíkur

Greinar

Hollendingar hafa reist sinn aðalflugvöll á landi, sem áður var sjávarbotn og Japanir hafa nýlega gert slíkt hið sama. Það er því þekkt aðferð að nota einskismannsland undir flugvöll í þéttbýlum löndum, þar sem hver fermetri lands er þegar nýttur á annan hátt.

Hugmyndin um flugvöll í Skerjafirði byggist ekki á eins brýnum forsendum og hinar erlendu hliðstæður. Hér er verið að losa um landrými nálægt borgarmiðju til þess að nýta hana betur. Íbúðir í Vatnsmýrinni eru til þess fallnar að efla höfuðborgarmiðju í Kvosinni.

Margs þarf að gæta á landi og sjó, þegar ráðizt er í framkvæmdir af þessu tagi. Ekki er gott að breyta Skerjafirði í eins konar skipaskurði milli flugbrauta. Gæta þarf hagsmuna þeirra íbúa, sem hafa fyrir augunum opið svæði Skerjafjarðar eins og hann er nú.

Borgin þarf að svara spurningum um álag á samgöngumannvirki, til dæmis á Miklubraut, Hringbraut, Snorrabraut og Sóleyjargötu, ef heill Kópavogur á að rísa í Vatnsmýrinni. Verður ríkið lipurt við að kosta mislæg gatnamót og fleiri akreinar á götum sem þessum?

Flugvöllur í Skerjafirði er ekki eina hugmyndin, sem snögglega hefur komizt í tízku. Ráðagerðir eru um að vinna land á hafsbotni út af Örfirisey og koma þar fyrir íbúðabyggð. Væri það í fyrsta skipti hér á landi, að nýtt landflæmi er framleitt undir vistarverur fólks.

Tvær spurningar hljóta að vakna, þegar hugmyndir um landvinninga á hafi úti eru komnar á þetta stig. Önnur er, hvort landþrengsli séu orðin hér. Er mikil goðgá, þótt byggja verði með ströndum fram út frá Reykjavík, upp á Kjalarnes og suður með sjó?

Þarf Reykjavík að stækka inn í sig? Hver er hugmyndafræðin á bak við þéttingu byggðar? Við vitum, að hún hefur skaðað borgina í mörgum tilvikum í fortíðinni, svo sem þegar útivistartengsli Laugardals og Elliðaársdals voru slitin með iðnaðarhverfi í Skeifunni.

Er nokkuð við það að athuga, að íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli í nágrannasveitarfélögunum í landnámi Ingólfs eða jafnvel í sveitarfélögum norðan Hvalfjarðarganga og austan Þrengsla? Við búum ekki við hollenzk og japönsk landþrengsli.

Hin spurningin er, hvort menn hafi gert sér grein fyrir, að yfirborð hafs hefur öldum saman verið að hækka á höfuðborgarsvæðinu og að spár um útblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum gera ráð fyrir, að haf gangi á land með stórauknum hraða á næstu áratugum.

Við alla mannvirkjagerð og einkum við byggingu íbúða á hafi úti er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvað það muni kosta að verja þessi verðmæti gegn eins metra hækkun yfirborðs sjávar, tveggja metra hækkun og enn frekari hækkun, sem er í spilunum.

Þetta eru ekki órar, því að ríki heimsins hafa viðurkennt vandann með því að senda umboðsmenn sína á viðamiklar ráðstefnur í Ríó og Tokyo til þess að rita undir sáttmála um aðgerðir til að reyna að hamla gegn eða hægja á hækkun hitastigs af mannavöldum.

Við skulum því ekki rasa um ráð fram í tilraunum til landvinninga á kostnað hafsins. Við höfum meira rými á landi en Hollendingar og Japanir. Við þurfum að huga að öllum kostnaðarliðum og áhættuþáttum fyrirhugaðra framkvæmda, sérstaklega íbúðabyggða úti í sjó.

Flugvöllur í Skerjafirði er nógu stór biti í hálsi, þótt ekki bætist við fjölmenn íbúðabyggð úti á Sundum. Við skulum ekki gleypa meira en við getum kyngt.

Jónas Kristjánsson

DV