Prófkjör Samfylkingar jafnaðarmanna í kjördæmum Norðurlands heppnuðust eins illa og prófkjör hennar heppnuðust vel á suðvesturhorninu. Í stað þess að styrkja Samfylkinguna verða þau til þess að veikja hana. Þau verða vatn á myllu annarra stjórnmálaflokka.
Sérstaklega er alvarlegt, að samanlögð þátttaka Siglfirðinga í prófkjörum Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar skuli vera meiri en sem nemur öllum kjósendafjölda í bænum. Sjá má, að margir Siglfirðingar ætla ekki að kjósa í kosningunum eins og í prófkjörinu.
Siglfirðingar misnotuðu prófkjörsreglur Samfylkingarinnar til að ná í þingmann á kostnað hennar. Þeir fæla um leið skagfirzka og húnvetnska kjósendur frá Samfylkingunni og sömuleiðis fæla þeir burt alþýðubandalagsmenn, sem eru fleiri en kratar í kjördæminu.
Þetta er hagsmunastríð Siglfirðinga á kostnað annarra svæða í kjördæminu og á kostnað fylgis Samfylkingarinnar í kjördæminu. Þingmaður Siglufjarðar verður eins konar sníkjudýr á kjördæminu og Samfylkingunni í skjóli misnotkunar á prófkjörsreglum.
Hvernig sem reynt verður að verja þessa framgöngu, verður ekki hjá því litið, að óheiðarlegt er að taka þátt í prófkjöri flokka, sem menn ætla ekki að kjósa í kosningunum. Því miður sanna ótal önnur dæmi, að þessi óheiðarleiki er landlægur víðar en á Siglufirði.
Svipaða sögu er að segja úr hinu kjördæminu, þar sem smalað var úr íþróttafélögum fólki, sem ekki ætlar að kjósa Samfylkinguna í kosningunum í vor. Þannig tókst að fella reyndan þingmann, sem hefur góðan orðstír og var eitt af ráðherraefnum Samfylkingarinnar.
Augljóst er, að eftir prófkjörið býður Samfylkingin á Norðurlandi eystra ekki upp á neitt ráðherraefni. Þar á ofan er ljóst, að prófkjörið styrkir önnur framboð, einkum græna vinstrið, skaðar þannig Samfylkinguna og dregur úr meðbyr hennar á landsvísu.
Enn má nefna, að smölunin í kjördæmum Norðurlands varð til þess að fella tvær konur úr fyrstu sætum væntanlegra framboðslista og einu þingmannssætum þeirra. Þetta eyðir góðu áhrifunum af velgengni kvenna í prófkjörum Samfylkingarinnar á suðvesturhorninu.
Stundum takast tilraunir til að fá utanflokksfólk til að taka í prófkjöri þátt í að búa til framboðslista og laða það þannig til fylgis við listann, en stundum takast þær ekki. Þær virðast hafa tekizt hjá Samfylkingunni á suðvesturhorninu en síður en svo á Norðurlandi.
Enn má nefna, að sameiginlega opin prófkjör Alþýðuflokks og Alþýðubandalags skekkja hlutföll flokkanna, þar sem auðveldara er að smala fólki úr öðrum flokkum til fylgis við framjóðendur úr Alþýðuflokknum en úr Alþýðubandalaginu. Þetta skaðar innra samstarf.
Sé miðað við úrslit síðustu kosninga, verða ekki nema sjö þingmenn úr Alþýðubandalaginu og þrír úr Þjóðvaka á vegum Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Það jafngildir hruni Alþýðubandalagsins og staðfestingu þess, að Samfylkingin er Alþýðuflokkurinn.
Því er formanni Alþýðuflokksins ekki orðið um sel. Eftir prófkjör suðvesturhornsins sagði hann, að þau væru ekki sigur Alþýðuflokksins. Eftir prófkjörin fyrir norðan sagði hann í sárabætur, að formaður Alþýðubandalagsins yrði talsmaður Samfylkingarinnar.
Eftir bakslagið fyrir norðan er ljóst, að prófkjör, þótt oft séu góð, eru ekki alltaf allra meina bót, því að útbreitt siðleysi Íslendinga lætur ekki að sér hæða.
Jónas Kristjánsson
DV