Einn af ódýrustu alvörustöðum borgarinnar býður eitt bezta og ferskasta salatborðið, með fallegum og hæfilega þroskuðum sveppum, rauðlauk og eggjum, blaðlauk, tvenns konar papriku og ýmsu öðru góðu hráefni, svo og margs konar brauði, en litlu af blönduðu gumsi. Þar voru líka ávextir handa þeim, sem ekki kæra sig um ís og niðursoðna ávexti með sykursósum í eftirrétt. Að kvöldi var reyktur og grafinn lax á borðinu.
Alþýða og útlendingar hafa löngum hallað sér að Pottinum og pönnunni, sem næst gengur sögufrægum Lauga-ási að hófsemi í verðlagi. Salatborð með súpu og kaffi kostar 890 krónur. Með aðalrétti að auki fer verðið í 1.600 krónur og má þá velja milli sjö rétta.
Í hádeginu voru heitir réttir innifaldir í verði salatborðsins, flestir fremur vondir, einkum þurr fiskur og þurrt kjöt. Ætar voru kartöflur, saltkjöt og eggjakaka með skinku.
Súpurnar voru frambærilegar hveitisúpur, með miklu af blómkáli, spergli eða hverju því innihaldi, sem gaf súpunni nafn hverju sinni. Brauð var undantekningarlaust gott og smjörið í snyrtilegum kúlum, en ekki vafið í álpappír að hætti flugfélaga.
Hveiti og egg voru óspart notuð í sósur og mikið magn notað af klassískum sósum, svo sem hollandaise og béarnaise, sem skafa má af til að gera matinn lystugri. Algerlega staðlað meðlæti, hvort sem snæddur var fiskur eða kjöt, var bökuð kartafla með smjörklípu og fjölbreytt grænmeti, hóflega pönnusteikt.
Grillaður karfi var merkilega mjúkur, betri en víða annars staðar í bænum, borinn fram með möndlublandaðri hveitisósu bragðsterkri. Rauðspretta var einnig ágætlega elduð, með hvítlaukssósu. Fiskiþrenna með rauðsprettu, skötusel og hörpudiski var nokkru lakari, svo sem venja er um slíkar þrennur. Tvær gerðir af sósu í miklu magni runnu hvor í bland við hina og spilltu réttinum.
Grillaður lambavöðvi var hæfilega eldaður, meyr en bragðlaus, svo sem títt er um íslenzkt lambakjöt. Gamalkunn béarnaise-sósa og fallegir sveppir bættu réttinn. Hægt var að tína saman góðan eftirrétt úr melónu, graskeri og döðlum af salatborði. Kaffi var frambærilegt.
Innréttingar staðarins hafa verið óbreyttar frá ómunatíð, en eru ekki þreytulegar, því að viðhald er í lagi og snyrtimennska til sóma. Staðurinn er vel hannaður og notalegur, með salatborð sem þungamiðju. Gestir sitja sumpart á bekkjum í tiltölulega þægilegum básum og sumpart á góðum stólum úti á gólfi. Gegnheil viðarborð eru dúklaus, vatnsglös á fæti eru fín, en pappírsþurrkur rytjulegar.
Þjónusta var öflug og ágæt, en dálítið kammó, þegar karlar á sextugsaldri voru kallaðir “strákar” upp á amerísku. Og dósatónlistin var stundum hátt stillt.
Jónas Kristjánsson
DV