Öll ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, nema Ísland, hafa ritað undir Kyoto-sáttmálann um minni losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki tekur þátt í þeim metnaði mannkyns að skila afkomendum okkar vistlegri hnetti.
Sum vestræn ríki eru orðin svo vistvæn, að þau hafa miklar tekjur af þeirri stefnu sinni. Svisslendingar hafa eflt stöðu sína sem ferðamannaland með því að leggja niður öll álver í landinu og Þjóðverjar hagnast á framleiðslu og sölu umhverfisvænna véla af ýmsu tagi.
Þegar menn og þjóðir setja sér háleit markmið, eru þau hvati til að gera betur en ella. Þeir, sem ná markmiðunum fyrr en aðrir, hafa yfirleitt hag af að selja þekkingu sína og verkkunnáttu til annarra, sem skemmra eru á veg komnir. Þannig hafa Þjóðverjar farið að.
Íslendingar hafa mikla möguleika á að fara á undan með góðu fordæmi og góðum arði. Bezta dæmið um það eru þýzk-íslenzku tilraunirnar til að knýja skip og bíla með vetni. Við getum orðið þjóða fyrstir til að hverfa frá notkun olíu og benzíns og selja öðrum þekkinguna.
Skipti úr olíu og benzíni yfir í vetni verður væntanlega stórtækasta aðgerð mannkyns til að minnka losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Þjóðirnar, sem taka forustu í því efni, munu ekki eiga í neinum vandræðum með að standa við háleit markmið sín.
Íslenzka ríkisstjórnin kýs að fara ekki þessa leið. Hún neitar að rita undir Kyoto-sáttmálann, ein vestrænna ríkisstjórna. Hún vekur alþjóðlega athygli á okkur með því að neita að setja sér svipuð markmið og ríkisstjórnir annarra vestrænna ríkja hafa gert.
Fremstur í metnaðarleysinu fer helzti óvinur íslenzkrar náttúru, Framsóknarflokkurinn, með ráðherra utanríkismála og orkumála í broddi fylkingar, formann og varaformann flokksins. Þeir hafa frosið inni með kosningaloforð um vanhugsað álver á Reyðarfirði.
Þetta verða tveir síðustu Íslendingarnir, sem falla frá órum um uppistöðulón í Eyjabökkum. Engum, sem hefur séð myndir og kvikmyndir frá svæðinu, blandast hugur um, að þarna verður aldrei leyft neitt uppistöðulón, hvað sem fjandmenn náttúrunnar bölsótast.
Svo frosnir eru metnaðarleysingjarnir að þeir hafa að undanförnu verið að reyna að túlka orð og gerðir ráðamanna Norsk Hydro um, að álver á Reyðarfirði verði ekki á dagskrá á næstu árum, sem eins konar yfirlýsingu um, að álverið sé samt á dagskrá Norsk Hydro.
Sorglegt er að búa við ríkisstjórn og ráðherra af þessu tagi. Það er niðurlæging fyrir þjóðina í heild á alþjóðavettvangi, að utanríkisráðherra skuli ekki vilja setja þjóðinni sömu markmið í framfaramálum og aðrar vestrænar þjóðir. Það setur okkur á þriðja heims stig.
Túristar ríkisstjórnarinnar hafa verið að gæla við Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Þeir hafa meira að segja látið sér detta í hug að koma upp sendiráði á slíkum stöðum, eins og þeir séu að reyna að flytja Íslendinga yfir í ömurlega sveit þriðja heimsins.
Samt höfum við dæmin í kringum okkur, sem sanna, að Vesturlönd auðgast hraðar en þriðji heimurinn og að forusturíki umhverfismála hagnast beinlínis á því að setja sér háleit markmið, sem kostar fyrirhöfn að standa við, en framkalla um leið seljanlega þekkingu.
Himinhrópandi er munur viðhorfa framsýnna ráðamanna Þjóðverja og skammsýnna ráðamanna Íslendinga til þeirra mála, sem varða framtíð okkar á jörðinni.
Jónas Kristjánsson
DV