Undarleg Japansferð

Greinar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi lugu fullum hálsi að fjölmiðlum, þegar þau fullyrtu, að ferð þeirra, ásamt Jónu Gróu Sigurðardóttur borgarfulltrúa, til Japans væri ekki á vegum túrbínuframleiðandans Mitsubishi.

Fjölmiðlar hafa náð í dagskrá ferðarinnar, sem er gefin út af umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi og á blaðhaus hans. Hún sýnir, að ferðin snýst um túrbínufyrirtækið, þótt vinum þess sé gefinn smátími til að spjalla við borgarstjórn Tokyo um ljósleiðara í holræsum.

Í fundargerðum borgarráðs, borgarstjórnar og Orkuveitunnar er hvergi að finna stafkrók um, að borgin eða Orkuveitan samþykki að kosta þessa Japansferð. Þetta vakti grun um óheilindi, því að slíkra bókana er þörf, þegar farið er í ferðalög á vegum þessara aðila.

Í reglum borgarinnar er beinlínis bannað, að menn þiggi ferðir á vegum viðskiptaaðila borgarsjóðs og Orkuveitunnar. Borgarstjóri, fulltrúar meirihlutans og minnihlutans eru að brjóta reglur, sem settar hafa verið til að reyna að hamla gegn spillingu hjá borginni.

Mitsubishi hefur selt veitunni tvær túrbínur og hefur fengið í hendur viljayfirlýsingu um þá þriðju án útboðs. Eftirlitsstofnun Efnahagssvæðis Evrópu hefur sent hingað til lands fyrirspurn og kvörtun. Það er fyrsta skref stofnunarinnar í málarekstri gegn spillingu.

Þegar upplýst varð, hvernig lá í málinu, hætti Jóna Gróa Sigurðardóttir við túrbínuferðina til Japans, enda er ekki lengur hægt að verja hana. Gögnin liggja á borðinu og þau sýna öll, að ferðin er á vegum fyrirtækis, sem stundar vafasöm viðskipti við borgarstofnun.

Til að forðast hagsmunaárekstra er það almenn viðskiptaregla á Vesturlöndum, að vinnuferðir stjórnenda séu greiddar af viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, en ekki af viðskiptaaðilum, sem tefla um mikilvæga hagsmuni í samningum við fyrirtækið eða stofnunina.

Athyglisverðast við mál þetta er, hversu reiprennandi stjórnmálamennirnir lugu að fjölmiðlum, þótt þeir hefðu mátt vita, að hið sanna mundi koma í ljós. Þetta sýnir, hvernig hrokinn getur slegið fólk blindu, þegar það er búið að vera lengur við völd en hæfilegt er.

Kannski verður reynt að bakfæra kostnaðinn yfir á Reykjavíkurborg til mæta gagnrýni, sem hér kemur fram og víðar úti í bæ. Það breytir ekki því, að skjölin sýna, að ferðin er farin á vegum viðskiptaaðilans samkvæmt dagskrá, sem gefin er út á bréfsefni hans.

Það breytir ekki heldur því, að ferðin er farin án fjárhagslegs samþykkis þar til bærra stofnana borgarinnar og átti því ekki að vera á kostnað þeirra, þótt hinum spilltu snúist hugur, þegar þeir hafa verið staðnir að því að þiggja Japansferð úr hendi viðskiptaaðila.

Borgarfeður og -mæður hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna skorts á lóðum í Reykjavík. Úthlutun lóða er orðin að takmörkuðum gæðum, sem hafa fengið skömmtunargildi. Slíkt kallar á spillingu, svo sem endranær, þegar menn geta farið að úthluta.

Þetta minnir allt á stjórnarhætti, sem tíðkuðust fyrr á árum hjá borginni, þegar sami flokkurinn hafði verið við völd áratugum saman. Eini munurinn er sá, að spillingin hefur haldið innreið sína heldur hraðar hjá núverandi valdhöfum en búast hefði mátt við.

Hitt verður svo öllum til góðs, að framvegis taki fjölmiðlar og borgarbúar mátulega alvarlega fullyrðingar þeirra, sem hafa það, sem hentugast þykir.

Jónas Kristjánsson

DV