Síðan nöldrið í austri andaðist úr uppdráttarsýki, hefur eftirlifandi maki legið fyrir hunda og manna fótum. Að horfnu Varsjárbandalagi hefur Atlantshafsbandalagið legið ellimótt í ræsinu og látið sparka í sig, í stað þess að leita athvarfs í vernduðu umhverfi fyrir aldraða.
Þrjúhundruð sinnum sagði Atlantshafsbandalagið við Slobodan Milosevic, að yfirgangur hans í Bosníu yrði ekki þolaður. Þrjátíu sinnum sagðist það mundu berja á honum, ef hann stigi feti lengra. Milosevic tók aldrei neitt mark á innantómum hótunum gamlingjans.
Hundrað sinnum hefur Atlantshafsbandalagið sagt við Slobodan Milosevic, að yfirgangur hans í Kosovo verði ekki þolaður. Tíu sinnum hefur það sagzt munu berja á honum, ef hann stígi feti lengra. Milosevic er samt ekki enn byrjaður að taka mark á neinu af þessu.
Milli Bosníu og Kosovo var mikið hópefli stundað í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles. Líkt og ungir menn sungu “Kristsmenn, krossmenn” í gamla daga, hafa herforingjar og utanríkisráðherrar sungið í kór, að þeir skuli nú aldeilis læra af reynslunni.
Þegar aðgerðir Milosevic hófust í Kosovo, var nákvæmlega vitað, að þær yrðu og hvernig þær yrðu. Í fjölmiðlum um allan heim og meðal annars í DV var búið að segja, að Kosovo yrði næst, það mundi gerast hratt og að atburðarásin yrði hin sama og í Bosníu.
Samt var Atlantshafsbandalagið óviðbúið. Það hafði ekkert lært af reynslunni. Það hótar á hótun ofan og allt kemur fyrir ekki. Það hagar sér eins og pókerspilari, sem segir djarft á tóma hunda, lætur skoða fyrir sér spilin í hvert einasta sinn og tapar jafnan pottinum.
Það hefur komið í ljós, að engar áætlanir voru til um, hvað gera skyldi í þessu eða hinu tilvikinu. Í hvert skipti, sem Milosevic herti á skrúfstykkinu, þustu herforingjar og utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins eins og gaggandi hænur út um allar trissur.
Skrítnast var, þegar stuttbuxnadrengir á borð við utanríkisráðherra Bretlands og Frakklands töldu sig geta tekið frumkvæði og leyst málið með nýjum hótunum á samningafundum í Rambouillet. Þeir hættu sér út í djúpu laugina og reyndust ekki kunna að synda.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom til að hnykkja á hótunum, en allt kom fyrir ekki. Viðræðurnar fóru út um þúfur og Milosevic hóf fyrir alvöru að safna liði í Kosovo. Þannig er staðan þessa dagana og enginn veit neitt í sinn haus í Atlantshafsbandalaginu.
Eftir nokkrar vikur ætlar gamlinginn að halda upp á fimmtugsafmæli sitt og skoða medalíurnar úr kalda stríðinu. Bandaríkjamenn munu flagga nýlegri tillögu sinni um, að bandalagið víkki verksvið sitt í hernaðaraðgerðum frá vettvangi Evrópu út um allan heim.
Tillagan er undarleg, ef höfð er hliðsjón af líkamlegu og andlegu ástandi Atlantshafsbandalagsins, sem hefur ekki getað tekið á heilu sér, síðan Varsjárbandalagið varð bráðkvatt. Evrópa getur ekki einu sinni tekið til í eigin álfu, hvað þá úti í hinum stóra heimi.
Það er grundvallaratriði í samskiptum manna og ríkja, að aldrei má hóta neinu, sem menn treysta sér ekki til að standa við. Þetta grundvallaratriði rauf At-lantshafsbandalagið nokkur hundruð sinnum í Bosníu og er aftur að brjóta nokkur hundruð sinnum í Kosovo.
Fyrir aldurs sakir og kölkunar er Atlantshafsbandalagið orðið ófært um að læra af reynslunni og ætti að útvega sér pláss á elliheimili fjarri heimsins amstri.
Jónas Kristjánsson
DV