Jómfrúin

Veitingar

Amma mín gaf mér bolsíur og aura fyrir bílæti og eldaði upp á dönsku frikadeller, hakkebøf og ribbensteg. Í minningunni finnst mér það hafa verið merkari matur en kjötbollur, hakk og svínarif, sem ég kynntist síðar í Múlaköffum og mötuneytum nútímans sem svokölluðum íslenzkum heimilismat.

Jómfrúin í Lækjargötu gælir við nostalgíuna með því að staðfesta þetta. Þar er notað kjötsoð, en ekki uppbökuð hveitisósa. Eldunartímar eru hafðir fremur hóflegir. Eftir margra áratuga eyðimerkurgöngu Íslendinga getum við nú aftur fengið danskan frokost í Reykjavík og andað að okkur ilminum úr Store-Kongensgade.

Frikadellur Jómfrúarinnar voru dæmigerðar fyrir þetta, betri, þéttari og betur kryddaðar en kjötbollur, bornar fram með hvítum kartöflum og köldu meðlæti, rauðkáli, sýrðri gúrku og sultutaui, svo og kjötsoði í sérstakri skál, svo að það flæddi ekki um matinn.

Ribbensteg með stökkri og harðri pöru hossaði hins vegar ekki fortíðarþrá minni eins mikið, borin fram með hvítum kartöflum, sýrðri gúrku, rauðrófu og rauðkáli, svo og kjötsoði. Betri var hæfilega pönnusteikt bleikja á þunnri og sítrónublandaðri heslihnetusósu með rúgbrauði og sýrðum rjóma.

Þetta var meðal þess, sem oft er á boðstólum á fimm rétta krítartöflu við diskinn. Aðalsmerki staðarins eru þó ekki hefðbundnir frokostréttir danskir, heldur tuttugu tegundir af dönsku smørrebrød að hætti Oscars og síðar Idu Davidsen, þar sem Jakob Jakobsson var í læri.

Minnisstæðast smurbrauða er alveg mátulegur gorgonzola-ostur með tómati og hrárri eggjarauðu á fransbrauði. Fínlega og bragðgóða lifrarkæfu með stökkri, en ekki harðri pöru, á rúgbrauði ber næsthæsta í minningunni, ýmist með rauðkáli, djúpsteiktri steinselju eða púrtvíni og piparrót. Vandlega byggður píramídi af furðanlega meyrum úthafsrækjum á fransbrauði er líka minnisstæður, svo og ljúf lambalifur á rúgbrauði, með steiktum lauk, soðnum eplabátum og sultutaui.

Heitir réttir kosta um 890 krónur, hálfsneiðar um 475 krónur og heilar smurbrauðssneiðar um 750 krónur. Hálf önnur sneið í hádegismat kostar um 1200 krónur. Staðurinn er á sumrin opinn á kvöldin og þá mundi þríréttað með kaffi kosta um 1800 krónur.

Jómfrúin líkist raunar ekki hefðbundnum og huggulegum dönskum frokostsstöðum á borð við Slotskælderen, Sankt Annæ eða Kanal Caféen, heldur ber hún norrænan fúnkissvip frá Idu Davidsen. Jómfrúin er löng og mjó, björt og smart, með viðarþiljum í lofti og stórum gluggum inn í garð, stífri röð Tívolí-plakata á langvegg og gervi-tréstólum við reitadúkuð borð. Fremst er skenkur, þar sem skoða má sýnishorn af smurbrauðinu.

Í gestum mælt er þetta er fínasta veitingahús landsins. Meðfram langvegg sitja þekktir menn á miðjum aldri við nærri fullt hús í hádeginu og nikka hver til annars, stjórnmálamenn, fréttamenn, sendiherrar og kverúlantar, en alls engir uppar, sem vita ekki einu sinni, hvað frokost er. Starfsfólk er jafn alúðlegt við gestina og það er við þröngt svið matargerðarlistar staðarins.

Hér vantar ekkert nema rødgrød med fløde í eftirrétt.

Jónas Kristjánsson

DV