Senn hefst háreysti

Greinar

Línurnar hafa skýrzt svo vel átta vikum fyrir kosningar, að óhætt er að spá sama stjórnarmynztri á næsta kjörtímabili. Formaður Sjálfstæðisflokksins lét landsfundarmenn flokksins ekki velkjast í vafa um, að hann teldi óbreytta stöðu farsælasta fyrir flokk og þjóð.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur burði til að velja um að starfa með Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni, sem formaðurinn gagnrýndi harðlega. Framboð Sverris Hermannssonar og nokkurra andstæðinga kvótakerfisins mun ekki veikja flokkinn, svo um muni.

Fylgið mikla, sem Samfylkingin fékk beint í kjölfar stóru prófkosninganna á Suðvesturhorninu, hefur haldizt óbreytt, svo að ljóst má vera, að hún er annað stærsta stjórnmálaaflið, af stærðargráðu Sjálfstæðisflokksins. Eigi að síður hafnar formaður hans Samfylkingunni.

Eini markverði óvissuþátturinn í þessu dæmi er veik staða Framsóknarflokksins. Sótt er að fylgi hans úr öllum áttum um þessar mundir. Hann stendur langt að baki stóru öflunum tveimur og getur hæglega farið svo illa út úr kosningunum, að það leiði til bakþanka.

Ljóst er, að hugur formanns Framsóknarflokksins er á svipuðum nótum og formanns Sjálfstæðisflokksins. Raunar virðist anda köldu frá honum til helztu forustumanna stjórnarandstöðunnar. Ef hann þorir, mun hann halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi.

Söguleg rök eru fyrir, að Framsóknarflokkurinn gefist upp á hægra samstarfi, þegar fylgishrun hans er orðið nógu mikið. Að þessu sinni mundi slíkt ekki leiða til þreifinga Framsóknarflokksins í aðrar áttir, heldur mundi flokkurinn draga sig í hlé og sleikja sár sín.

Lokamynztur slíkrar stöðu væri eins konar þjóðarsátt Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Erfitt er samt að sjá, hvernig þessi tvö öfl geti náð saman um sæmilega starfhæfa ríkisstjórn eftir hatrammar deilur undanfarinna missera um ýmis viðkvæmustu þjóðmálin.

Græna vinstrið gegnir engu hlutverki í mynztrinu að þessu sinni, þótt það kunni að fá nokkra þingmenn. Línurnar í pólitíkinni eru þær, að líkur eru á þrenns konar möguleikum á tveggja flokka stjórn, áður en menn fara að gæla við eitthvert þriggja flokka mynztur.

Innviðir og valdakjarnar allra flokkanna eru sæmilega traustir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur losnað við umdeildan fyrrverandi formann úr pólitíkinni og stendur því í fyrsta sinn óskiptur að baki formanni sínum. Og flokkurinn hefur loksins fengið langtíma-varaformann.

Staða formanns Framsóknarflokksins er veikari, svo sem sást af því, að hann treysti sér ekki til að fá nýjan ráðherra í stað þess, sem hvarf úr ríkisstjórninni. En fylgistapið þarf samt að verða mikið á þeim bæ, áður en hróflað verður við helztu valdamönnum flokksins.

Samfylkingin er svo ný, að hún hefur ekki mótað boðleiðir milli ráðamanna sinna. Til skamms tíma mun það há henni, ef hún lendir í viðræðum um stjórnarmyndun, en til langs tíma litið ætti hún að vera í sæmilegum málum, enda er þar sáttahljóð í fólki inn á við.

Stórorrusturnar eru að baki. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa komist gegnum erfiðleika, sem gjarna fylgja skipan framboðslista, og ganga sæmilega heilir til kosninga. Stóru fylgissveiflurnar eru að baki. Nú tekur við tími hægfara fylgisbreytinga fram að kosningum.

Senn hefst háreysti og vopnaglamm. Eftir kosningar mun svo hið gamalkunna koma í ljós, að því meira, sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV