Sigur Evrópusambandsins

Greinar

Hrun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er það bezta, sem komið hefur fyrir sambandið frá upphafi. Loksins verður hreinsað til í stjórnkerfi þess og komið á vestrænum reglum um jafnvægi valdanna og um ábyrgð ráðherra á því, sem fram fer í ráðuneytum þeirra.

Hér eftir verða völd þings Evrópusambandsins meiri og völd framkvæmdastjórnarinnar minni. Hér eftir neyðast framkvæmdastjórarnir til að kynna sér það, sem er að gerast í embættismannakerfi þeirra og sjá um, að góðir siðir og góðar vinnureglur séu á oddinum.

Þetta þýðir, að Evrópusambandið verður lýðræðislegra en áður. Það verður líkara stjórnarháttum á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og Þýzkalandi. Mandarínar að frönskum hætti eiga ekki lengur upp á pallborðið og allra sízt frekjuhundar á borð við Judith Cresson.

Raunar varð það framferði Cresson, sem felldi framkvæmdastjórnina. Hún hefur allan feril málsins verið persónugervingur hins ýkta hroka og stjórnlausu einkavinavæðingar, sífellt reiðubúin til að bregða fæti fyrir eftirlit og lýsa yfir hreinu borði hjá sjálfri sér.

Frábært er að losna við Jacques Santer, formann framkvæmdastjórnarinnar. Hann hefur hvorki reynzt hafa burði né siði til að gegna stöðu sinni. Hann lét innra eftirlit sitja á hakanum og sýndi ekki framtak, fyrr en hann rak endurskoðandann, sem hafði kjaftað frá.

Brottrekstur endurskoðandans var kornið, sem fyllti mælinn. Þau hrokafullu mistök sýndu, að Jacques Santer hafði ekki hugmynd um, hvaða eldar voru að brenna, og ímyndaði sér, að hann gæti áfram rambað ábyrgðarlaus um valdasali Evrópusambandsins.

Að vísu var sáð til vandamálsins áður en Santer kom til skjalanna. Það var hinn viljasterki Jacques Delors, sem lengst af mótaði skipulag Evrópusambandsins og kom þar á stjórnarháttum mandarína að frönskum hætti. Þeir stjórnarhættir verða ekki endurreistir.

Sumir framkvæmdastjóranna verða endurráðnir, en enginn þeirra, sem gagnrýndir voru í skýrslunni, er varð stjórninni að falli. Þing Evrópusambandsins, sem kosið er beinni kosningu í löndum bandalagsins, mun herða eftirlit og taka meira frumkvæði í sínar hendur.

Með nýrri skipan mála í hundahreinsuðu Evrópusambandi má búast við, að stjórnarhættir þess batni verulega og vegur þess vaxi í almenningsálitinu. Þannig mun sambandið mæta nýrri öld með traustum og lýðræðislegum innviðum og veita Evrópu örugga forustu.

Evran er byrjuð að stíga sín fyrstu skref sem gjaldmiðill allrar Evrópu, þar á meðal ríkjanna utan bandalagsins. Viðræður eru hafnar við ríki Mið-Evrópu um stækkun bandalagsins til austurs. Hvort tveggja mun ganga betur, þegar búið er að hreinsa til í Bruxelles.

Þar sem Evrópusambandið hefur snögglega færst frá frönskum stjórnarháttum í átt til engilsaxnesk-skandinavísk-þýzkra stjórnarhátta, er það orðinn mun girnilegri kostur fyrir Ísland og Noreg. Þau eru hluti hins pólitíska menningarheims, sem hefur orðið ofan á í Evrópu.

Sambandið er samt ekki orðið fullkomið allt í einu. Það er enn merkisberi verndarstefnu gæludýra atvinnulífsins á kostnað evrópskra neytenda og kemur sem slíkt fram í deilum á alþjóðavettvangi um frjálsa verzlun. Það styður til dæmis ríkisstyrki til sjávarútvegs.

Hrun merkantílistanna í framkvæmdastjórninni bendir þó til, að í náinni framtíð muni bera meira á markaðshyggju í voldugustu efnahagsstofnun Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV