Askur við Suðurlandsbraut tjuggutjuggar eins og gömul eimlest, sem ekki fæst til að gefa upp öndina, af því að tækin voru svo vel smíðuð í gamla daga, þegar hún varð til sem millistig veitingahúss og skyndibitastaðar, heimaland kokkteilsósunnar. Allt er enn eins og ævinlega á Aski, þar á meðal matseðillinn. Svo langt er síðan staðurinn steinrann, að óþarfi er að gera veður út af því núna.
Á sunnudögum hefur verið steikarskurður í hádeginu og aðra daga frekar ólystugt hlaðborð, sem einkenndist af mjögsoðnu grænmeti, djúpsteiktri ýsu og miklum sósum, en bjargaðist fyrir horn með beikonfylltum kartöflum, meyru svínafleski og góðri rauðsprettu með þrenns konar papriku.
Aðgangur að óvenjulegum salatbar fylgir öllum aðalréttum staðarins. Barinn státaði af tveimur og þremur tegundum af olífum, ýmsum baunategundum, hnetum, sultuðum og kryddlegnum lauk, gráfíkjum og niðursoðnum ætiþistli, fyrir utan ýmislegt af hefðbundnara tagi, en engum sveppum. Þar voru sósur og tvenns konar edik, en engin olífuolía. Einnig súpa dagsins, uppbökuð hveitisúpa af skárra taginu, en ekki alltaf nákvæm að heiti, því að brokkálssúpa með syndandi brokkáli var eins og sveppasúpa á bragðið. Ágætt brauð fylgdi.
Stórlúða dagsins var hæfilega elduð, greinilega fersk og bragðgóð, borin fram með kryddsmjöri, fjölbreyttu og fallegu grænmeti léttsteiktu, og bakaðri kartöflu, sem er einkennistákn staðarins. Smjörsteikt rauðsprettuflak var snarpheitt og meyrt, jóðlandi í smjöri, með milt elduðu blómkáli og brokkáli, svo og sveppum og tvenns konar papriku og auðvitað bakaðri kartöflu. Sú breyting hefur raunar smám saman orðið á Aski, að fiskur er orðinn sterkasta hlið eldhússins og fer vel á því.
Uppáhald fjárbóndans var sagt vera grillað lambafillet, en mér fannst það vera innralæri, vel kryddað villijurtum og borið fram með mikið steiktum lauk og grimmt elduðu káli, svo og bakaðri kartöflu. Lakasti aðalrétturinn var barbeque blanda svínarifja og kjúklingalæra. Rifin voru sæmileg, en kjúklingurinn þurr og frönsku kartöflurnar gervilegar.
Sæmilegasta eplabaka með vanilluís og þeyttum rjóma kom á borð með súkkulaðisósu. Ostaterta var nánast ostlaus, eins og Royal búðingur að áferð og bragði, borin fram með jarðarberjum og blæjuberjum. Kaffivatn að amerískum hætti var frambærilegt sem slíkt.
Hádegishlaðborð kostar 1090 krónur, salatbarinn 870 krónur, réttur dagsins með súpu 1290 krónur og þríréttað af matseðli kostar 2370 krónur. Þetta höfðar til stórfjölskyldna á ferðalagi utan af landi, vel stæðra einstaklinga, sem ekki nenna að elda, og slæðings af ferðamönnum.
Húsakynni hafa lengi verið óbreytt og fremur kuldaleg, en barnavæn. Langsófar eru með veggjum, stólar á móti og á milli þeirra hentug tveggja manna borð, sem slá má saman að vild. Dósatónlist er stundum með háværara móti. Sennilega er þjónustufólk á of lágu kaupi og hættir fljótt, því að sífellt voru að birtast ný andlit, sem kunnu enn lítið til verka.
Jónas Kristjánsson
DV