Óbreytt stjórnarsamstarf

Greinar

Stjórnarflokkarnir réttu sig af í skoðanakönnun DV, sem birtist í gær, en stjórnarandstöðuflokkarnir misstu flug. Breytingarnar voru samt litlar og Samfylkingin með 20 þingsæta fylgi er mun öflugra framboð en Framsóknarflokkurinn með 12 þingsæta fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn með 26 þingsæta fylgi gæti samkvæmt tölum könnunarinnar myndað stjórn hvort sem er með Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni, en samstjórn Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar mundi hanga á bláþræði 32 þingmanna.

Sennilega yrðu þeir flokkar tveir að ná samstarfi við Græna vinstrið með 4 þingsæta fylgi til að geta myndað stjórn með traustum þingmeirihluta. Þriggja flokka stjórnarmyndun er mun erfiðari en tveggja flokka stjórnarmyndun og hlýtur að teljast ótrúlegri.

Þótt breytingar séu litlar milli kannana, nægja þær samt til þess að magna líkur á framhaldi núverandi stjórnarmynzturs. Samkvæmt tölunum stendur valið milli stjórnar Sjálfstæðisflokks með Framsóknarflokki eða Samfylkingunni. Niðurstaða þess vals er ljós.

Þótt ráðamenn stjórnarflokkanna segist hafa óbundnar hendur, hafa þeir ekki verið ómyrkir í máli um, að þeir séu ánægðir með núverandi samstarf og vilji halda því áfram. Jafnframt hafa þeir valið Samfylkingunni hvassyrði, sem ekki stuðla að opnun í þá átt.

Skoðanakönnunin bendir ekki heldur til, að Framsóknarflokkurinn tapi svo miklu fylgi, að hann þori ekki að vera í óbreyttu samstarfi í eitt kjörtímabil í viðbót. Hnignun úr 23% fylgi í 19% fylgi nægir ekki til þess, að flokkurinn telji sig þurfa að fara í valdafrí.

Ef niðurstaða kosninganna verður sú, að annar stjórnarflokkurinn vinnur einn þingmann og hinn tapar þremur þingmönnum, en þingmeirihlutinn er áfram tryggur, er ekki hægt að segja slíkt vera augljósa ávísun á uppstokkun aðildar flokka að ríkisstjórn.

Skoðanakönnunin sýnir 40% fylgi Sjálfstæðisflokks, 31% fylgi Samfylkingar, 19% fylgi Framsóknarflokks og 6% fylgi hjá Grænu vinstri. Þetta er gamla fjögurra flokka kerfið með þeirri breytingu, að Samfylkingin hefur náð öðru sæti af Framsóknarflokknum.

Auðvitað er þetta bara skoðanakönnun. Enn eru sjö vikur til kosninga. Fylgissveiflur verða áfram, þótt þær verði mun minni en á undanförnum tíma prófkjöra og landsfunda. Hér eftir mun fylgi aðeins leka í smáum stíl milli framboða í hinni eiginlegu kosningabaráttu.

Meira máli skiptir, að 30% kjósenda eiga enn eftir að gera upp hug sinn. Ótrúlegt er, að þeir raðist á framboðin í alveg sömu hlutföllum og þeir, sem þegar hafa ákveðið sig. Kosningabaráttan mun fyrst og fremst snúast um að ná eyrum þessa síðbúna hóps kjósenda.

Kosningaskjálfti framboðanna leynir sér ekki. Yfirboð eru komin á fulla ferð og munar ekki mikið um milljarðinn í þeirri sláturtíð. Skiptir þar engu, hvort loforðsmenn hafi áður hrósað sér af gætni í fjármálum. Gætni í loforðum er altjend fokin út í veður og vind.

Grundvallarmunur sést þó í ýmsum veigamiklum atriðum, þar sem sumir lofa hreinum og klárum breytingum, en aðrir leggja áherzlu á, að áherzla verði lögð á áherzluatriði, svo að notað sé bráðskemmtilegt orðfæri eins þekktasta pistlahöfundar þjóðarinnar.

Við vitum nú, hvernig staðan er við upphaf hinnar raunverulegu kosningabaráttu. Svo er að sjá, hvernig framboðin spila úr kortunum, sem þau hafa á hendi.

Jónas Kristjánsson

DV