Marklausar loftárásir

Greinar

Langvinnar loftárásir Bandaríkjahers á Írak hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Serbíu munu ekki heldur bera tilætlaðan árangur. Slobodan Milosevic mun eigi að síður halda áfram að drepa Kosovara og stökkva þeim úr landi.

Afskipti Vesturveldanna og Atlantshafsbandalagsins af Kosovo einkennast af því að valdamenn vestursins fylgjast hvorki með fréttum né draga lærdóm af sögunni. Alvarlegast er þó, að þeir hafa litla hugmynd um hugsanaferil andstæðings á borð við Slobodan Milosevic.

Hann hefur sömu grundvallarhugsjón og Saddam Hussein Íraksforseti. Hann er fyrst og fremst að tryggja sér völd innanlands gegn hugsanlegum arftökum. Hann notar aðgerðir Vesturlanda til að þjappa þjóðinni um sig og hreinsa alla, sem hann grunar um drottinsvik.

Milosevic heldur völdum með því að höfða til rótgróins og sjúklegs þjóðernisofstækis Serba. Því meira sem þeir verða að fórna í mannslífum og efnislegum verðmætum, þeim mun trylltara verður viðhorf þeirra og þeim mun meira eflast völd forsetans.

Serbía gengur hvorki fyrir mannréttindum né peningum. Eftir langvinnar refsiaðgerðir ætti ríkið samkvæmt vestrænum hagfræðilögmálum að vera orðið gjaldþrota fyrir löngu. En Serbía gengur fyrir viljastyrk þjóðar, sem vill ryðja sér til rúms sem stórveldi Balkanskaga.

Fyrirlitning á málamiðlunum er annar þátturinn í skaphöfn Slobodans Milosevics og Saddams Husseins. Þeir prútta ekki. Þeir líta ekki á gagntilboð mótherjans sem kröfu um gagntilboð á móti. Þeir líta á það sem ávísun á að auka kröfurnar, hækka verðið.

Þeir eru meðteknir af mótsögn styrkleika og veikleika. Ef einhver gefur eftir, líta þeir á það sem yfirlýsingu um veikleika, sem beri að svara með yfirlýsingu um styrkleika. Þess vegna hefur Slobodan Milosevic aldrei tekið neitt minnsta mark á tilboðum Vesturlanda.

Eins og áður í Bosníu hafa Vesturlönd í meira en ár verið að gefa eftir í Kosovo. Fyrst var hótað hernaði, ef Serbíuher færi til Kosovo. Síðan var hótað hernaði, ef ekki yrði skrifað undir friðarsamninga. Loks var hótað hernaði, ef Serbar hæfu sókn í Kosovo.

Eftir fyrstu hótun sendi Slobodan Milosevic Serbaher til Bosníu. Eftir aðra hótun neitaði hann að skrifa undir friðarsamninga. Eftir þriðju hótun hóf hann stórsókn í Kosovo. Í öllum tilvikum gekk hann í berhögg við hótanirnar og niðurlægði lífsþreytt Atlantshafsbandalag.

Þessu hyggst bandalagið mæta með tempruðum loftárásum, sem eiga að veikja hernaðarmátt Serba nógu mikið til þess að þeir geti ekki útrýmt Kosovörum, en samt ekki svo mikið, að Kosovarar útrými serbneska minnihlutanum í Kosovo. Þetta er grátlegt rugl.

Tempruð stefna ellimóðs Atlantshafsbandalags er eins og allur ferill þess í málinu. Í fyrsta lagi átti aldrei að hóta neinu, sem ekki átti að standa við. Í öðru lagi á að eyða meininu, en ekki gutla í tempruðum stríðsleik, sem er dæmdur til að hámarka hörmungarnar.

Ferill bandalagsins hefur leitt til þess, að Slobodan Milosevic flýtir sér sem mest hann má til að hrekja Kosovara úr þorpum sínum og reka þá, sem ekki eru drepnir, yfir landamærin til Makedóníu og Albaníu. Tempraðar loftárásir magna þessar hörmungar.

Annað hvort ber að hefja loftárásir á Milosevic sjálfan og senda síðan landher til höfuðs honum sjálfum og glæpaflokki hans eða láta Kosovo-málið afskiptalaust.

Jónas Kristjánsson

DV