Borg

Veitingar

Gamlir og sögufrægir hótelveitingasalir eru víða við aðaltorg gamalla borga í Evrópu, gamlir og sögufrægir, rykfallnir og þreytulegir. Borgin við Austurvöll var fyrir nokkrum árum gerð upp í gamla stílnum, með bleikum veggjum og grænum tjöldum, gömlum og þægilegum húsbúnaði. Yfirþyrmandi afgreiðslubar var bætt við á miðju gólfi og varðveitt korkgólf, sem hefur séð fífil sinn fegri.

Borgin dregur ekki að sér gesti á kvöldin, þegar þar sitja nánast eingöngu hótelgestir við glerplötuborð. Í hádeginu er hins vegar líflegt vegna staðsetningarinnar og sögufrægðarinnar. Þá má líta hér sams konar fólk og á systurstöðum meginlandsins, ráðsettar frúr að skiptast á kjaftasögum um leið og þær njóta góðrar fagþjónustu og tilþrifalítillar matargerðar nútímans að hætti íslenzkra miðlungsstaða.

Maturinn á Borginni var löngum fremur vondur, en hefur batnað með árunum og verið frambærilegur í seinni tíð. Fiskur hefur loksins haldið innreið sína löngu á eftir öðrum matstöðum. Mikið er um endurtekningar þess, sem er til í miklu magni í eldhúsinu. Polenta maískökur birtust með ólíklegustu réttum, tvenns konar hrísgrjón, svo og dísætar biscotta grjótkökur.

Forréttir voru ágætir. Hin gamalkunna gulrótarsúpa dagsins var snarpheit, fremur bragðgóð og ekki of þykk, með fljótandi brauðteningum. Heit Maryland-krabbakaka var fínleg og bragðgóð, með smásöxuðu og stökku grænmeti og ítölsku rauðsalati. Kryddlegið og pönnusteikt grænmeti var líka gott, borið fram með grjótkökum, ítölsku salati, ólífum og kotasælu. Kryddjurtagrafinn nautahryggvöðvi með engiferlegnum sveppum og sinnepskremi hafði skemmtilegan anískeim.

Gufusoðinn lax var skemmtilega upp settur í kúf utan um fiskifroðu ofan á grænmetisteningum og tvenns konar stinnum hrísgrjónum. Þrátt fyrir tilþrifin var laxinn ekki ofsoðinn og naut sín vel með ítölsku blaðsalati. Wok-pönnusteiktir sjávarréttir reyndust vera rækja, hörpudiskur og smátt skorinn fiskur og smásaxað grænmeti, svo og tvenns konar hrísgrjón, allt með sojabragði úr hófi fram.

Hörpuskel og lax voru hæfilega pönnusteikt, með maísköku, ætiþistli og vatnagrasasósu. Skemmtilega sinnepsristaður þorskhnakki var lítillega of þurr, sat ofan á grænmetisblönduðum hrísgrjónum og borinn fram með of þykkri humarsósu. Appelsínubökuð andabringa var fremur meyr, borin fram með áðurnefndri maísköku og ágætri sósu úr appelsínum og engifer.

Svokölluð eplaterta var ekki terta, heldur nokkrir soðnir eplabátar á fyrrnefndri grjótköku, bornir fram með hlutlausum vanilluís og kanilblandaðri karamellusósu, alls ómerkur eftirréttur. Líkjörvættur crème brulêé búðingur var bragðbetri, en einkenndist einnig af grjótköku. Frambærilegust var sívöl tiramisu ostaterta í kunnuglegum stíl með kaffisósu og jarðarberjasósu. Kaffi var í lagi, borið fram með konfekti.

Þríréttað með kaffi kostaði 4100 krónur á mann, en súpa dagsins og fjölbreytt úrval aðalrétta kostuðu að meðaltali 1200 krónur í hádeginu.

Jónas Kristjánsson

DV