NATÓ er að tapa stríðinu

Greinar

Hörmulegt er sjá gamlan vin liggja í eymd og volæði fyrir hunda og manna fótum og þola spörk frá hvaða dólgi sem er. Verra er, þegar vinurinn afneitar ástandi sínu og þykist vera brattur í ræsinu. Þannig bregzt Atlantshafsbandalagið við spörkum Milosevics.

Nató er að tapa stríðinu. Bandalagið hefur ekki heft hernaðargetu Serbíu til að hrekja íbúana úr Kosovo. Bandalagið hefur ekki bætt ástand Kosovara, sem eru almennt komnir á flótta. Bandalagið hefur ekki reynzt vera trúverðugt, því enginn treystir raupi þess.

Með því að draga Kosovara að samningaborðinu í Rambouillet og láta þá skrifa undir samkomulagið um Kosovo, hefur Atlantshafsbandalagið tekið ábyrgð á velferð hins nýja skjólstæðings án þess að standa við hana. Meira að segja hafa samningamenn verið myrtir.

Flóttamenn eru orðnir tæp milljón í Makedóníu og Albaníu. Ríki Atlantshafsbandalagsins verða á sinn kostnað að taka við fólkinu, sjá því fyrir matvælum og heilsusamlegum aðstæðum. Milosevic er að takast að hreinsa Kosovo af níu af hverjum tíu íbúum landsins.

Á fimmtíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins er stefna þess í Kosovo bókstaflega í rjúkandi rústum. Samt var allt fyrirsjáanlegt, sem þar hefur gerzt. Til dæmis var í leiðurum DV fyrir nokkrum árum sagt nokkrum sinnum, að Bosnía yrði endurtekin í Kosovo.

Dálkahöfundar víðar um heim hafa spáð harmleiknum í Kosovo og getuleysi Atlantshafsbandalagsins til að taka á málinu. Bent hefur verið á, að loftárásir á hernaðarlega mikilvæga staði mundu ekki fá Milosevic Serbíuforseta til að víkja frá þjóðarhreinsuninni í Kosovo.

Ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins hefur margsinnis verið bent á, að annað hvort yrði að láta Milosevic eiga sig eða tefla fram hundrað þúsund manna landher, studdum hernaðarþyrlum. Loftárásir mundu einar sér ekki tryggja framgang markmiða bandalagsins.

Persóna Milosevics hefur verið skýrð og borin saman við persónu Saddams Husseins. Þjóðarmarkmið Serba um hreinsun annarra þjóða hefur verið augljóst öldum saman. Tilgangsleysi loftárása einna sér hefur víða komið í ljós og nú síðast í Tsjetsjeníu og Írak.

Tekizt hefur að sprengja innanríkisráðuneytið í Belgrað, nokkrar brýr á Dóná og tefja fyrir umferð skipa um ána. Að flestu öðru leyti hafa loftárásirnar verið marklitlar. Þær hafa stundum legið niðri vegna veðurs og á góðviðrisdögum hefur hittni verið léleg.

Ógæfusemi er einkenni ráðamanna bandalagsins og ráðamanna utanríkisráðuneyta og hermálaráðuneyta aðildarríkjanna. Þeir lesa ekki sagnfræðina, þeir hlusta ekki á ráð og þeir hafa ekki greind til að skilja stöðuna. Þeir hafa rekið gagnslausan lofthernað í tvær vikur.

Úr því sem komið er, neyðist bandalagið til að fara með landher inn í Kosovo, gera loftárásir á Milosevic sjálfan, stjórnarbyggingar og hermálaráðuneyti hans, draga þúsundir brjálaðra Serba fyrir nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag og lýsa yfir sjálfstæði Kosovo.

Eftir meðferð Milosevics á Nató er ekki lengur hægt að sæta samkomulagi um sjálfstjórn Kosovara innan ríkjasambands Júgóslavíu. Ekki er heldur lengur hægt að sæta því, að Milosevic sé áfram við völd í Serbíu. Glæpir Serba í Kosovo hafa breytt stöðunni.

En því miður hafa ráðamenn vestursins og bandalags þess hvorki þekkingu né greind til að skríða upp úr eymd og volæði sínu á fimmtíu ára afmæli Nató.

Jónas Kristjánsson

DV