Milosevic Serbíuforseta er að takast að losna við albanska íbúa Kosovo til að rýma fyrir Serbum. Meirihluti Kosovara er þegar flúinn úr landi og fleiri eru á leiðinni. Með flutningi fólksins til annarra landa eru Vesturlönd að staðfesta og styðja þennan sigur Milosevics.
Þar sem ætlunarverk Milosevics er langt komið, er hann farinn að veifa sjónhverfingu vopnahlés í því skyni að vinna tíma til að festa núverandi stöðu í sessi. Á næstunni mun hann lofa ýmsu til viðbótar, enda er hann sérfræðingur í að gefa loforð án nokkurs innihalds.
Honum mun takast þetta, af því að Vesturveldin hafa ekki bein í nefinu til að taka Kosovo af Serbíu og gefa héraðinu frelsi. Hann mun notfæra sér, að Vesturveldin hafa trú á friðhelgi landamæra og vilja frekar niðurstöðu, sem víkst undan breytingum á þeim.
Milosevic er að takast margt fleira í leiðinni. Honum hefur tekizt að grafa undan stjórninni í Svartfjallalandi, sem neitaði að taka þátt í þjóðarhreinsun hans og hefur orðið að taka við miklum fjölda flóttamanna, sem munu þrengja kost heimamanna og valda andúð þeirra.
Ennfremur hefur honum tekizt að grafa undan stefnu þjóðafriðar í Makedóníu. Flóttamannastraumurinn þangað er að magna andúð þarlendra Serba, svo að þeir munu eins og Serbar í Svartfjallalandi halla sér að þjóðernissinnuðum leiðtogum á borð við Milosevic.
Stríðið gerir Milosevic að óumdeildum leiðtoga allra Serba á Balkanskaga. Hann losnar við stjórnarandstæðinga heima fyrir og kemur stuðningsmönnum sínum til valda í Svartfjallalandi og Makedóníu, eins og honum tókst áður á sjálfstjórnarsvæði Serba í Bosníu.
Það skiptir Milosevic engu, þótt Serbía verði að greiða þessa Stór-Serbíu dýru verði í loftárásum. Hann mælir ekki velgengni sína í steypu og tæknibúnaði, heldur í landi og fólki, sem dýrkar harðstjórann. Hann fagnar raunar loftárásum, ef þær þjappa fólkinu um hann.
Vesturveldin eru farin að styðja þjóðarhreinsunina með því að flytja flóttamennina frá Kosovo út um öll Vesturlönd. Þótt sá flutningur sé til bráðabirgða í orði kveðnu, eru menn þegar búnir að sætta sig við, að mikill hluti flóttafólksins muni ekki snúa til baka.
Þannig hefur Milosevic tekizt að framleiða flóttamannavanda um gervöll Vesturlönd, sem taka á sinn kostnað við tugum þúsunda fólks og öllum þeim vanda, sem hingað til hefur reynzt fylgja í kjölfar fjölmennra hópa af nýbúum, sem aðlagast sumir seint og illa.
Milosevic stefnir að stöðu, þar sem hlutföllin í Kosovo eru ekki lengur níu Albanir á móti hverjum Serba, heldur einn á móti einum, og formleg yfirráð svæðisins verði í höndum Serbíu, þótt Vesturveldin skilji eftir gæzlumenn. Hann finnur síðar leið til að losna við þá.
Betri kostur væri að fara nú þegar með landher um Kosovo, hrekja brott dólga Milosevics og hjálpa flóttamönnunum við að endurbyggja heimili sín. Þetta átti raunar að gera fyrir tveimur vikum. Það var Vesturlöndum ódýrari kostur en sá, sem nú blasir við.
Bezti kostur Vesturveldanna væri að koma Milosevic frá völdum, dauðum eða lifandi, og færa forustusveit Serba í tugthúsið hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag. Ekki verður hægt að byrja að reyna að leysa vandræði Balkanskaga fyrr en búið er að losna við óþverrann.
En tómt mál að tala um slíkt meðan Vesturlönd keppast hver um önnur þver við að taka við flóttamönnum frá Milosevic og fullnusta þannig áform hans.
Jónas Kristjánsson
DV