16% hengingaról

Greinar

“Þú velur, hversu stóran hluta af mánaðarúttektinni þú greiðir um hver mánaðamót”, segir í bréfi eins bankans til viðskiptamanna sinna. Allir bankarnir bjóða núna þessa nýju aðferð við að lifa hátt á líðandi stund gegn því að síðar komi tímar og síðar komi ráð.

Hvergi er þess getið í bréfinu, sem mestu máli skiptir, að vextir happafengsins eru 16%. Það eru óhagstæðustu vextir, sem völ er á. Þeir eru verri en dráttarvextir. Þeir eru sannkallaðir okurvextir á tímum 2­3% verðbólgu. Þeir eru bein leið til fjárhagslegrar glötunar.

Í auglýsingum og bréfum bankanna er höfðað til óraunsæis fólks, sem vill telja sér trú um, að engin vandamál séu önnur en þau, sem eru í núinu, að engin mánaðamót skipti máli önnur en yfirvofandi mánaðamót. Þetta er kókaínsprauta eyðslufíkilsins.

Þessi siðlausa, en löglega aðferð bankanna við að hneppa viðskiptamenn sína í þrælahald eyðslufíkninnar mun leiða til gjaldþrota miklu fleira fólks, en ella hefði orðið. Bankarnir hafa fundið létta og ljúfa leið fyrir fólk til að telja sér trú um, að núið eitt skipti máli.

Óforbetranlegir eyðslufíklar geta gengið milli bankanna og fengið sér nokkur kort til að láta eina milljón hverfa í súginn í einu sukki. Síðan velja þeir, samkvæmt orðalagi bankanna, “hversu stóran hlut af mánaðarúttektinni þú greiðir um hver mánaðamót”.

Svipaðar aðferðir tíðkast í útlöndum til að fá fólk til að sólunda fjármunum, sem það á ekki. British Airways býður fólki 175.000 króna ferðalán, ef það bara kemur í einhverja söludeild flugfélagsins og kaupir sér farseðil. Ekki er tilviljun, að þar eru vextir líka 16%.

Komið er úr tízku, að ríkið telji sér skylt að hafa með handafli vit fyrir fólki. Samkvæmt nútíma markaðslögmálanna er hver sinnar gæfu smiður. Ríkið hefur eigi að síður hagsmuna að gæta, því að nýja sukkið mun magna innflutning, gjaldeyrishalla og verðbólgu.

Nýju hengingarólar bankanna valda því, að stjórnvöldum mun ekki takast það markmið sitt að halda vöxtum í skefjum og stöðva gjaldeyrisþurrðina. Þess vegna ætti ríkið að auglýsa á móti og senda fólki bréf með áherzlum á atriði, sem bankarnir þegja um.

Skuldir íslenzkra heimila eru geigvænlegar, milli 400 og 500 milljarðar króna og hafa vaxið um 40­50 milljarða króna á ári. Nýju plastkortalánin munu auka hraðann á þessu sjálfsmorðsferli og valda fólki miklum þjáningum, þegar linnir sæluvímu líðandi sukkstundar.

Það er sameiginlegt hagsmunamál ríkis og þjóðar, að fólk átti sig á, að lán með 16% vöxtum eru ekki leið þess til bjargálna. Þess vegna ber ríkinu að fletta ofan af feluleiknum í auglýsingum bankanna og auglýsa á móti, að fólk sé að kaupa sér fjárhagslega hengingaról.

Fleiri dæmi eru um, að höfðað sé til óraunsæis fólks. Happdrætti Háskólans auglýsir á myntamottum í verzlunum, að lausn á þeim vanda fólks, að endar nái ekki saman um mánaðamót, felist í að kaupa sér happdrættismiða. Lengra er ekki hægt að komast í ruglinu.

Því miður eru Íslendingar að meðaltali auðveld bráð fyrir bóndafangara. Við trúum, að happdrættismiðar láti enda ná saman. Við trúum, að ný plastkort gefi okkur sukkfæri, sem við höfðum ekki áður. Íslendingar hafa þúsundum saman hrifsað upp 16%-vaxtakortin.

Það er ekki fögur iðja að magna veruleikafirringu fólks. Þótt löglegt sé, er það ljótt af bönkum og sparisjóðum að gera sér veika lund þjóðarinnar að féþúfu.

Jónas Kristjánsson

DV