Silkihúfurnar töpuðu stríðinu

Greinar

Í gamla daga voru drykkfelldir og arflitlir yngri synir brezkra aðalsætta gerðir að liðsforingjum eða sendiráðunautum til að þurfa ekki að hafa ofan af fyrir þeim. Þetta var handhæg leið við að koma vandamáli úr augsýn og er enn notuð víða, einkum þó í þriðja heiminum.

Þegar horft er á óskipulagðar og óundirbúnar aðgerðir Atlantshafsbandalagsins á undanförnum vikum, er nærtækt að spyrja, hvort þar hafi safnast saman þeir, sem sízt hafi dugað í sveitum liðsforingja og sendiráðunauta heima fyrir og verið sendir í útlegð.

Þegar þjóðahreinsun Serba hófst í Kosovo, fór Nató að skipuleggja aðgerðir. Bandalagið hafði ekki tilbúnar neinar aðgerðir niðri í skúffu. Þegar viðbrögð Serbíustjórnar voru önnur en reiknað hafði verið með, voru ekki tilbúnar neinar varaáætlanir niðri í skúffu.

Hvað hafa silkihúfur Atlantshafsbandalagsins verið að gera á undanförnum árum? Þær hafa að minnsta kosti ekki fylgst með því, hvernig Bosníuvandinn gróf um sig. Þær hafa að minnsta kosti ekki fylgst með því, sem skrifað hefur verið og spáð um Kosovovandann.

Allar aðstæður voru slíkar, að Nató átti að hafa tilbúnar áætlanir með ótal afbrigðum, rétt eins skákmeistari við taflborð. Hvergi voru meiri líkur á vandræðum á landamærum Vesturlanda en einmitt í arfaríkjum Júgóslavíu af völdum Slobodans Milosevics.

Ekki var svarað grundvallarspurningu eins og þeirri, hvað gera skyldi, ef Milosevic tæki ekki mark á hótunum. Enn síðar var svarað, hvað gera skyldi, ef Milosevic tæki ekki mark á loftárásum. Samt var búið að segja bandalaginu, að hann mundi á hvorugu mark taka.

Komið hefur í ljós í Kosovo, að Nató er pappírstígrisdýr. Það getur ekki stundað annan hernað en takmarkaðan og síðbúinn lofthernað. Flugvélar fara bara á loft, þegar veður er gott. Jafnvel þá er hittni í lágmarki, svo sem áður hafði komið í ljós í loftárásum á Írak.

Talsmenn Nató eru veruleikafirrtir, þegar þeir gorta af árangri loftárásanna. Hann er hefur enginn verið í heilar þrjár vikur. Slobodan Milosevic hefur ótrauður haldið áfram þjóðahreinsun og hefur losnað við meira en helming íbúa Kosovo úr landi í fang Vesturlanda.

Löngu áður en Kosovo-stríðið byrjaði, var ljóst, að enginn árangur mundi nást, nema Atlantshafsbandalagið treysti sér til að senda þangað hundrað þúsund manna landher. Þetta vissi Milosevic og þetta vissu vestrænir fréttaskýrendur. Þetta vissu allir nema Nató.

Stríðið við Slobodan Milosevic minnir á stríðið við Saddam Hussein í Írak. Það kemur aðallega niður á börnum, konum og gamalmennum, en hittir ekki fyrir ábyrgðarmennina. Loftárásir hámarka volæði almennings, en treysta setu dólganna í mjúkum valdastóli.

Úr því að bandalagið treysti sér ekki til að fara með landher inn í Kosovo, átti það ekki að skipta sér af málefnum Júgóslavíu og allra sízt að taka ábyrgð á lífi og limum fólks. Aðild Nató hefur gert illt ástand enn verra og bandalagið situr eftir rúið trausti og virðingu.

Það hlálega er, að blásnauðu smáríki aftan úr grárri forneskju Balkanskagans hefur tekizt það, sem Sovétríkjunum og Varsjárbandalaginu sálugu tókst aldrei, að niðurlægja Atlantshafsbandalagið og sýna umheiminum fram á, að það er geymslustofnun fyrir silkihúfur.

Það eru stór orð að segja, að heimska, vanþekking og reynsluleysi ráði ríkjum í Atlantshafsbandalaginu, en er þó ekki annað en það, sem liggur í augum uppi.

Jónas Kristjánsson

DV