Yfirlit

Veitingar

Veitingahús Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar raðast eftir verðlagi á láréttan ás, sem skipt er í fjóra kafla með krónupeningum, og eftir gæðum á lóðréttan ás, sem skipt er í fjóra kafla með stjörnum. Úr því fæst samanburður verðs og gæða, þar sem matstaðirnir raðast á mismunandi hagstæð skábönd, sem táknuð eru með blómum, frá einu upp í fimm.

Staða veitingahúsanna á skáböndunum var áður táknuð með stjörnum. Reynslan sýnir, að lesendur átta sig betur á samanburðinum, ef stjörnurnar eru miðaðar við gæðin ein án tillits til verðs. Því er búin til ný táknmynd, blóm, fyrir samhengi verðs og gæða.

Lítið samhengi er milli verðs og gæða

Þú færð misjafnt fyrir peningana í veitingahúsum Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar. Sú er athyglisverðust niðurstaða könnunar DV og Fókuss á 45 matstöðum, sem staðið hefur í rúmt ár. Niðurstöður einstakra staða hafa birzt í Fókusi á föstudögum.

Samandregin niðurstaða könnunarinnar birtist í meðfylgjandi grafi, sem sýnir, að lítið samhengi er milli verðs og gæða. Til dæmis eru matstaðir af öllum gæðaflokkum á dýrasta verðbilinu, þar sem fólk borðar þríréttaðan kvöldmat fyrir 4000–5000 krónur á mann. Sjö beztu veitingahúsin eru að meðtali ekki dýrari en þau átján, sem fylgja þeim næst í gæðum.

Afar fá veitingahús eru á verði innan við 3000 krónur, sjö af fjörutíuogfimm. Algengt er, að matstaðir séu með svipað eða upp undir það svipað verð og Listasafnið á Holti, 4400 krónur, án þess að standast samjöfnuð í gæðum. Meðan staðirnir spanna allt gæðalitrófið, hnappast þeir langflestir í verðlagi á tiltölulega þröngt bil frá 3.000 krónum upp í 4500 krónur.

Við höfum breytt táknmyndum einkunna á þann veg, að samhengi verðs og gæða er nú táknað með misjöfnum fjölda blóma, frá einu upp í fimm. Gæðin ein út af fyrir sig, án tillits til verðs, eru nú táknuð með stjörnum, frá einni upp í fjórar. Verðlagið er táknað með krónupeningum, frá einum upp í fjóra.

Í lista yfir matstaði í Lífinu eftir vinnu hér í Fókusi hafa nýju táknin verið tekin í notkun. Þeir, sem vilja rifja upp rýni í einstök veitingahús, geta fundið upphaflegu greinarnar á vefnum á vísir.is/fokus

Jónas Kristjánsson

DV