Eins áratugar Sundabraut

Greinar

Þótt bæjaryfirvöld á Siglufirði telji hagsmunamál þjóðarinnar allrar, að grafin verði tvenn jarðgöng þaðan til Ólafsfjarðar, hlýtur gerð Sundabrautar í Reykjavík að vera margfalt meira hagsmunamál þjóðarinnar allrar, því að hún styttir vegferð margfalt fleira fólks.

Þegar landsfeður uppgötva fyrir kosningar, að til ráðstöfunar til vegagerðar séu nokkrir milljarðar, sem ekki fundust áður, væri skynsamlegast að nota þá alla í Sundabraut, en ekki eyrnamerkja þá öllum öðrum kjördæmum en einmitt Reykjavík og Reykjanesi.

Sundabraut er ætlað að liggja frá Sæbraut yfir Kleppsvík, um Gufunes og Geldinganes, yfir Leiruvog, um Álfsnes og yfir Kollafjörð upp á Kjalarnes. Álfsnes og Kjalarnes eru orðin að hluta Reykjavíkurborgar eftir sameiningu hennar og Kjalarneshrepps.

Sundabraut gerir kleift að byggja ný borgarhverfi á Álfsnesi og Kjalarnesi, sem annars mundu valda öngþveiti á núverandi leiðum inn í bæ. Hún styttir einnig leið allra þeirra af landsbyggðinni, sem þurfa að aka til höfuðborgarinnar til að reka erindi sín.

Skynsamlegt er að hafa hóf á kostnaði við gerð Sundabrautar. Brautin þarf ekki að verða minnisvarði um háreista brúarhönnun arkitekta. Brúin yfir Kleppsvík þarf að vera innan hafnarsvæðisins, svo að ekki þurfi að gera ráð fyrir umferð skipa undir hana.

Flytja þarf hafnsækin fyrirtæki við Sævarhöfða í utanverðum Ártúnshöfða á annan stað, svo að ekki þurfi að hanna brúna með tilliti til þeirra. Göng undir Kleppsvík eru ekki góður kostur, því að reiknað hefur verið, að þau lengi leiðina um einn kílómetra.

Einfaldast og ódýrast er að velja innstu leiðina af þeim brúarkostum, sem taldir eru koma til greina, og láta Sundabraut liggja yfir Elliðaárvog um uppfyllingu út af Ártúnshöfða og síðan yfir Grafarvog. Þessi leið felur í sér styttri brúarhöf en aðrar leiðir yfir Kleppsvík.

Athyglisvert er, að torsóttasta verkefnið við gerð Sundabrautar er tenging hennar við gatnakerfi borgarinnar. Ekki er hægt að demba umferðinni af Sundabraut yfir á Sæbraut án þess að gera ráðstafanir til að hindra stíflur af völdum aukins umferðarþunga.

Með mislægum gatnamótum þarf að tryggja viðstöðulausan akstur án umferðarljósa milli Sundabrautar og Sæbrautar. Ennfremur er líklegt, að leggja þurfi framhald Sundabrautar í stokk undir Skeiðarvog að brúnni, sem á að tengja saman Skeiðarvog og Miklubraut.

Þrengslin á þessu svæði minna á, að borgin hefur stundum ekki getað reist umferðarmannvirki á skynsamlegan hátt vegna of mikillar þéttingar byggðar. Frægasta dæmið um þetta er Höfðabakkabrúin, sem vegna nýrra húsa liggur í keng yfir Vesturlandsveg.

Þétting byggðar hefur valdið ýmsum öðrum ófögnuði í borginni. Skeifan og Fenin slitu í sundur möguleikann á samfelldu útivistarsvæði frá Laugardal upp í Heiðmörk. Og nú er enn verið að klípa af Laugardal með því að úthluta lóðum til ýmiss konar stórhýsa.

Gerð brúar yfir Kleppsvík getur hafizt árið 2001 og lokið 2003. Sundabraut þarf árið 2007 að vera komin upp á Álfsnes, því að þá má búast við, að lokið verði uppbyggingu Grafarholts og Hamrahlíðar. Tveimur árum síðar ætti Sundabraut að vera komin upp á Kjalarnes.

Þetta er eins áratugar verkefni, sem ætti að hafa forgang í vegagerð þjóðarinnar, enda býr það yfir margfalt meiri arðsemi en önnur vegagerð í umræðunni.

Jónas Kristjánsson

DV