Sálar verða að Pálum

Greinar

Þegar Sál frá Tarsos var kominn langleiðina til Damaskus frá Jerúsalem til að halda áfram ofsóknum sínum gegnum kristnum mönnum, fékk hann eldingu í höfuðið og fór upp úr því að boða kristna trú víða um Miðjarðarhafslönd undir heitinu Páll postuli.

Allt frá tímum postulasögunnar hafa snögg sinnaskipti manna verið talin sæta tíðindum. Svo var, þegar Konstantínus mikli, keisari í Miklagarði, snerist fyrir orrustuna við keppinaut sinn skyndilega til kristinnar trúar, þótt það væri þá enn fámennur trúflokkur.

Einnig þótti tíðindum sæta, þegar helzti fyrirgreiðslumaður íslenzkra stjórnmála síðustu áratuga, þingmaðurinn, kommissarinn, ráðherrann og bankastjórinn, einn höfunda gjafakvótans, snerist skyndilega gegn fyrri stefnu og fór að boða afnám gjafakvótans.

Að vísu hafa kjósendur enn ekki tekið hugarfarsbreyttum Sverri Hermannssyni eins vel og íbúar Rómaveldis tóku Páli postula á sínum tíma. Það getur staðið til bóta, því skammt er liðið frá eldingunni í höfði Sverris og trúboð tekur lengri tíma en einar kosningar.

Minna hefur verið tekið eftir eldingunni, sem slegið hefur í höfuð Halldórs Ásgrímssonar í miðri kosningabaráttunni. Hann er orðinn gerbreyttur frá því, sem var á Laugarvatnsfundinum í upphafi kosningabaráttunnar og boðar nú nýjan og saklausan Framsóknarflokk.

Þá varði hann óbreytt kvótakerfi í sjávarútvegi, sagði andstæðinga miðlunarlóna á hálendinu vera óvini efnahagsþróunar í landinu og taldi enga minni máttar aðila hafa orðið út undan í góðærinu, sem hann og forsætisráðherra höfðu skaffað þjóðinni af mildi sinni.

Nú vill hann skyndilega skattleggja gjafakvótann í sjávarútvegi, er til viðræðu um að hlífa viðkvæmustu hlutum hálendisins við miðlunarlónum og vill fara að leysa alls kyns vanda ýmissa hópa, sem miður mega sín, með milljarðafjárveitingum á sérhverjum pósti.

Fyrir sinnaskiptin birtust auglýsingar, sem sýndu fram á, að öll vandamál þjóðarinnar hefðu verið leyst í stjórnartíð Framsóknarflokksins. Eftir sinnaskiptin birtast auglýsingar, sem sýna fram á, að Framsóknarflokkurinn muni í næstu stjórn bæta fyrir brot sín.

Sál frá Tarsos varð að Páli postula og Flavíus Valeríus varð að Konstantínusi mikla. Spurningin er, hvort þeir Sverrir Hermannsson og Halldór Ásgrímsson verði ekki að skipta um nafn eftir höfuðhöggið, svo að sinnaskiptin verði talin af ætt kraftaverka fyrri tíma.

Ekkert bendir til, að hin frægu sinnaskipti sögunnar hafi verið af hagkvæmnisástæðum. Páll postuli var tekinn af lífi fyrir trúboð sitt og Konstantínus mikli hefði getið valið sér fjölmennari trúflokk til fylgilags. Sinnaskipti þeirra voru einlæg og áhrifamikil.

Væntanlega gildir hið sama um áhrifamennina í helmingaskiptafélagi gæludýrabúðarinnar norður í Atlantshafi. Þar hafi ekki komið að málum neinir ímyndarfræðingar til að segja gömlu jálkunum úr fjórflokkinum, að hugarfarsbreyting sé að verða með þjóðinni.

Væntanlega munu þeir félagar taka sér ný nöfn og mynda saman ríkisstjórn eftir kosningar um afnám gjafakvótans, verndun hálendisins fyrir Finni Ingólfssyni og nokkurra milljarða fjárveitingar til sérhvers hóps þeirra, sem minna mega sín í lífinu.

Gott er til þess að vita, að tími kraftaverkanna er ekki alveg liðinn, þótt öld efnisvísinda hafi lengi ráðið ríkjum. Kannski verða höfuðhöggin að tákni 21. aldar.

Jónas Kristjánsson

DV