Norðlenzk vísindi

Greinar

Samkvæmt skoðanakönnun DV í gær er beint samhengi milli auglýsinga stjórnmálaflokka og fylgistaps þeirra. Flokkarnir tveir, sem langmest auglýsa, mestu lofa í auglýsingunum og mesta áherzlu leggja á ímyndarauglýsingar, eru jafnframt að hríðtapa fylgi.

Í sókn eru aftur á móti hinir flokkarnir, sem láta sér að mestu nægja hefðbundna stjórnmálaumræðu á fundum og í fjölmiðlum og auglýsa lítið annað en fundi sína. Þetta einstaka dæmi bendir til, að kjósendur séu ekki eins vitlausir og áróðursmeistarar virðast halda.

Því miður hníga ekki öll dæmi í þessa átt. Norður í landi hefur vel verið tekið þeim ummælum eins ráðherrans, að ekki sé hægt að treysta sunnlenzkum vísindamönnum fyrir rannsóknum á lífríki Mývatns, af því að þeir vilji leggja Mývatnssveit í eyði.

Samkvæmt kenningu ráðherrans eru til margs konar raunvísindi eftir búsetu. Samkvæmt kenningu ráðherrans er hægt að panta niðurstöður raunvísinda eins og hvert annað lögfræðiálit. Ef þér líkar ekki eitt álitið, pantarðu þér bara sjálfur annað geðfelldara.

Rektor Háskólans á Akureyri leikur í þessu sambandi hlutverk soltna hræfuglsins, sem sér matarholu í kenningu ráðherrans og er tilbúinn að taka við rannsóknum úr hendi svokallaðra “sunnlenzkra” vísindamanna, sem ekki komust að þóknanlegum niðurstöðum.

Til eru frægari dæmi um, að menn líti á raunvísindi sem eins konar pöntuð lögfræðiálit. Trofim Denisovich Lysenko var sovézkur búfræðingur, sem að undirlagi Stalíns hafnaði “vestrænum” erfðavísindum og hugðist þannig margfalda kornuppskeru Sovétríkjanna.

Hræfuglarnir flýttu sér að maka krókinn í háskólum Sovétríkjanna. Fimm árum fyrir dauða Stalíns var meira eða minna búið að útrýma vestrænni erfðafræði í háskólunum, drepa nokkra þá helztu af síðustu Móhí-könunum og leggja sovézkan landbúnað í rúst.

Í Sovétríkjum Stalíns og á Norðurausturlandi Halldórs Blöndals eru raunvísindi eitt af mörgum tækjum stjórnmálanna til að sanna Sannleikann. Í hugarheimi þeirra stjórnast vinnubrögð og niðurstöður raunvísindamanna af atriðum á borð við búsetu þeirra.

Hagsmunaaðilar og margir kjósendur í kjördæmi ráðherrans og rektorsins eru sama sinnis. Því ætti að vera unnt að byggja háskólann á Akureyri upp sem norðlenzka stofnum, er komizt að norðlenzkum fremur en sunnlenzkum lögfræðiálitum í raunvísindum.

Við höfum fleiri dæmi um, að hér á landi sé litið á raunvísindi öðrum augum en hefðbundið er að gera á Vesturlöndum. Þannig voru niðurstöður rannsókna á erfðum MS-sjúkdómsins kynntar á blaðamannafundi, með tilheyrandi verðhækkun hlutabréfa í kjölfarið.

Erlendis eru niðurstöður rannsókna í raunvísindum kynntar með ritgerðum, sem fara um flóknar síur, áður en þær eru teknar til birtingar í sérhæfðum fagtímaritum. Þannig er reynt að tryggja, að ekki teljist annað til vísinda en það, sem lýtur ströngum fræðiaga.

Hér á landi er helzta erfðafræðifyrirtækið rekið eins og stjórnmálaflokkur, þar sem fjárfestar eru í hlutverki kjósenda. Það býr yfir ímyndar- og áróðursfræðingum, á í stöðugum útistöðum við meinta öfundarmenn og kynnir niðurstöður með lúðrablæstri í sjónvarpi.

Sem betur fer er þjóðin samt ekki alveg úti að aka, úr því að flokkar tapa fylgi í kjölfar innantómra ímyndarauglýsinga og innantómra loforðaauglýsinga.

Jónas Kristjánsson

DV