Skásta kerfi sem við þekkjum

Greinar

Oft heyrist, að tómahljóð sé í því lýðræði, sem gefi fólki færi á að fara á kjörstað á fjögurra ára fresti til að taka afstöðu til stjórnmálaflokka, sem allir gæti almennra viðhorfa og ýmissa sérhagsmuna og séu fúsir til að svíkja sérloforð sín til að komast til valda.

Mörg sérmál, sem kjósendum er annt um, ganga þversum gegnum flokka og fá ekki afgreiðslu í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem tíðkast til dæmis í Sviss og víða í Bandaríkjunum. Slík mál verða alltaf út undan, þegar um þau er fjallað í óbeinu stórflokkalýðræði.

Reynslan sýnir samt, að kjósendur telja lýðræðið vera nógu virkt til að hafa fyrir því að kjósa tvisvar sinnum á fjögurra ára fresti, annars vegar í byggðakosningum og hins vegar í þingkosningum. Þátttaka er meiri í kosningum hér á landi en í flestum öðrum löndum.

Réttur til að velja þingmenn, sem síðan velja ríkisstjórn og setja landinu lög, er hornsteinn lýðræðis, þótt hvert atkvæði skipti litlu máli. Ekkert annað kerfi losar fólk á auðveldan hátt við valdaspillta ráðamenn, sem hafa verið lengur við völd en þjóðinni er hollt.

Kjósendur ganga að vísu með misjafna hugsun að kjörborðinu. Ekki er ný bóla, að margir vilji láta þingmenn skaffa. Í gamla daga voru atkvæði keypt og seld, en nú er meira beðið um þjónustu við víðari sérhagsmuni, einkum þó útvegum fjármagns til byggðastefnu.

Ekki er heldur nýtt, að margir krossi við sitt lið eins og þeir hafa alltaf gert og munu alltaf gera, rétt eins og stuðningsmenn fótboltafélaga. Kannanir sýna raunar, að hollusta við flokka er á undanhaldi. Kjósendur eru fúsari en áður til að taka áhættuna af nýju vali.

Gjalda ber samt varhug við rannsóknum, sem sýna, að kjósendur séu almennt með opinn huga og velti málum fyrir sér jafnvel fram á kjördag. Þetta byggist á svörum þeirra sjálfra og gerir ráð fyrir, að þeir fari með rétt mál og geti metið, hvenær þeir hafi ákveðið sig.

Misjafn sauður er í mörgu kjósendafé. Sjá má af auglýsingum stjórnmálaflokka, að þeir víla ekki fyrir sér grófar sögufalsanir til að bæta ímynd sína. Slíkar auglýsingar eru ekki samdar án þess að einhverjir að baki séu sannfærðir um eymd og heimsku almennings.

Kjósendur eru misjafnlega meðvitaðir um hlutverk sitt á kjördegi. Þeir hafa mismikið kynnt sér menn og málefni. Þeir láta í misjöfnum mæli almannahagsmuni eða sérhagsmuni sitja í fyrirrúmi. Slíkt dregur ekki úr gildi aðferðarinnar við að velja valdamenn.

Lýðræði stendur ekki og fellur með því, að allir kjósendur séu fyllilega meðvitaðir um það, sem þeir eru að gera, og hagi sér í samræmi við það. Lýðræði byggist meira á leikreglunum sjálfum og möguleikanum á að skipta út fólki án þess að það kosti borgarastríð.

Öðrum þræði eru kosningar og aðdragandi þeirra eins konar þjóðhátíð eða eins og risavaxinn kappleikur. Í gamla daga flykktust Miklagarðsmenn á paðreiminn til að sjá bláa og græna liðið keppa. Pólitíkin í dag er einn af paðreimum og hringleikahúsum tilverunnar.

Gerð eru forrit til að reikna þingmenn út og inn eftir niðurstöðum nýjustu skoðanakannana eða samanlögðum niðurstöðum margra. Veðjað er á gamalreynda klára og óþekkta fola. Hástigi nær Eurovision stemmningin um talningarnóttina, þegar tölvur gubba spám í síbylju.

Þannig er lýðræðið sumpart leikur og sumpart alvara, sumpart innantómt og sumpart innihaldsríkt. Það er að vísu vont kerfi, en samt það skásta, sem við þekkjum.

Jónas Kristjánsson

DV