Örninn er enn ofsóttur

Greinar

Skýring er fundin á því, hversu hægt gengur að forða íslenzka haferninum frá útrýmingarhættu. Margir telja sig þurfa að launa honum lambið gráa og sumir láta verkin tala. Nú síðast hefur æðardúnsheildsali brennt hreiðurhólmann Arnarstapa í landi Miðhúsa.

Í greinargerð sinni segist brennumaður ekki mundu syrgja að sjá síðasta örninn við hliðina á geirfuglinum. Hætt er þó við, að þýzkir dúnkaupendur verði hvefsnir, ef atferli íslenzkra dúnsala kemst í hámæli þar ytra. Af því geta hlotizt eftirmál, sem fara úr böndum.

Dúnn er á undanhaldi á erlendum markaði. Af þriggja tonna framleiðslu síðasta árs er eitt tonn ennþá óselt. Samt hefur verðið fallið úr 45 þúsund krónum á kíló í 37 þúsund krónur. Það eru því önnur atriði en örninn, sem hamla gegn arðsemi dúntekju hér á landi.

Á þessum áratug hafa um 40 arnarpör verpt á ári að meðaltali. Fyrir rúmri öld verptu hér yfir 150 pör á ári og var dúntekja þó meiri og brýnni atvinnuvegur í þá daga heldur en hún er núna. Við eigum því langt í land að koma arnastofninum upp í eðlilegt jafnvægi.

Formlega séð er örninn friðaður og bannað að brenna sinu á varpstöðvum hans. Sektir eru þó svo lágar, að þeir, sem telja örninn spilla lifibrauði sínu, munu líta á þær sem hvern annan herkostnað. Þess vegna brenna þeir sinu í gamalkunnum varpstöðvum arnarins.

Marklaust er að hafa lög, sem segja eitt, en meina annað. Ef þjóðin vill forða erninum frá ofsóknum hagsmunaaðila, verður hún að fá sett strangari lög um friðun og margfalt þyngri ákvæði um refsingar. Við getum látið brunann í Arnarhólma marka tímamót.

Stundum gerast þeir atburðir, sem fá fólk til að vakna til meðvitundar. Þannig brugðust menn ókvæða við um allt land, þegar Landsvirkjun drekkti Fögruhverum í sumar. Þá var sagt: Aldrei aftur. Nú hrukku menn aftur við, þegar dúnsalinn brenndi Arnarhólma.

Haförninn er hluti af sjálfsvirðingu þjóðar, sem hefur lært lexíu síðasta geirfuglsins. Hann er sérstæður hluti Íslands og þeirrar ímyndar landsins, sem væntanlega gerir ferðaþjónustu að fjárhagslega mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar á fyrsta áratugi nýrrar aldar.

Við þurfum að koma arnarstofninum aftur upp í rúm 150 varppör. Dúnbændur og dúnsalar munu eftir sem áður geta framleitt allan þann dún, sem markaðurinn kærir sig um og vill borga sómasamlega fyrir. Þeir verða bara að lifa við örninn eins og forfeður okkar.

Um áratuga skeið hefur ríkt hér eins konar óöld í samskiptum þjóðarinnar við náttúru landsins. Í nærri öllum tilvikum hafa meintir sérhagsmunir verið látnir njóta vafans og verðmæti umhverfis okkar verið skert. Fyrir löngu er orðið tímabært að snúa þessu við.

Við þurfum að hindra, að bændur reki sauðfé sitt á nýgræðinginn á söndum Mývatnsöræfa. Við þurfum að stöðva frekari hamfarir Landsvirkjunar á hálendinu. Við þurfum að stöðva ofsóknir dúnsala gegn haferninum. Við þurfum að meta umhverfið til verðs.

Innan áratugar verður ferðaþjónusta, sem einkum byggist á sérkennilegu og lítt röskuðu umhverfi, stærri og tekjudrýgri atvinnuvegur en núverandi höfuð-atvinnuvegir þjóðarinnar. Við höfum beina hagsmuni af því að fara að taka til í garðinum okkar.

Örninn verpir ekki í Arnarhólma við Miðhús á Barðaströnd á þessu sumri. Við skulum láta örlög hans verða til að efla friðun arna um allan helming.

Jónas Kristjánsson

DV