Samfylkingin sleikir sárin

Greinar

Eins og Framsóknarflokkurinn á Samfylkingin eftir að útskýra, hver borgaði 60­70 milljón króna kosningabaráttu flokksins. Það geta ekki hafa verið ríkið, flokksmenn og velviljaðir athafnamenn nema að litlum hluta. Meirihluti upphæðarinnar er þar fyrir utan.

Við stefnum í humátt á eftir Bandaríkjamönnum, þar sem stjórnmálamenn og -flokkar eru að meira eða minna leyti í eigu hagsmunaaðila. Stjórnmálamenn verja þar langmestum hluta tíma síns í kosningabaráttu til að safna fé til baráttunnar hjá hagsmunaaðilum.

Ríkið hefur svo mikil völd til að greiða götu stórfyrirtækja og atvinnugreina eða standa í vegi þeirra, að það er hagsmunamál stórforstjóra, að mikilvægir stjórnmálaflokkar og -menn séu þeim vinveittir fremur en andsnúnir. Pólitískt vændi er því í blóma á Vesturlöndum.

Þótt Samfylkingin hafi glutrað sínum 60­70 milljónum í misheppnaða og árangurslitla kosningabaráttu, breytir það ekki því, að einn risaaðili eða örfáir stórir aðilar eiga hönk upp í bak hennar. Þessu samhengi er haldið leyndu fyrir almenningi í okkar lokaða þjóðfélagi.

Framsóknarflokkurinn stóð undir væntingum helztu vildarvina sinna með því að halda völdum í ríkisstjórn, en Samfylkingin stóð ekki undir væntingum sinna vildarvina. Hún fær nú langvinnt tækifæri til að sleikja sárin utan ríkisstjórnar og gera sig bardagafæra.

Ekki var hægt að búast við betri árangri eftir erfiða fæðingu Samfylkingarinnar í vetur. Hún vann varnarsigur með því einu að komast í heilu lagi yfir þröskuld kosninganna og geta farið að snúa sér að því að stofna einn stórflokk úr fjórum aðstandendaflokkum.

Bezt er fyrir Samfylkinguna, að stofnun flokksfélaga og smíði nýs flokkskerfis taki sem stytztan tíma. Dráttur á slíku er til þess eins fallinn að endurvekja minningar um gamlar sælustundir í gömlu smáflokkunum. Nýi flokkurinn þarf að neyta meðan á nefinu stendur.

Meðan Samfylkingin er að ljúka fæðingunni, þarf hún friðarleiðtoga, sem ber klæði á vopnin innanhúss og fær ólíka hópa til að vinna saman í stað þess að grafa hver undan öðrum. Fátt bendir til, að neinn sé betur til þess fallinn en núverandi talsmaður flokksins.

Ósigurinn í kosningunum er ekki Margréti Frímannsdóttur að kenna. Hún hefur staðið sig vel í því hlutverki að halda utan um óstýrilátt lið á þann hátt, að það kemur sem ein heild frá orrahríðinni og getur lokið við stofnun flokksins. Mikið meira var ekki í spilunum.

Þegar næstu kosningar nálgast, þarf Samfylkingin samt að koma sér upp stórforingja, sem hún getur teflt fram með sama hætti og Davíð Oddssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Steingrími Sigfússyni var að þessu sinni hampað af hinum flokkunum í tíma og ótíma.

Við núverandi aðstæður má ljóst vera, að raunverulegur leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi verður Steingrímur Sigfússon, sem hefur kraft og úthald til að standa undir slíku hlutverki. Í núverandi þingliði Samfylkingarinnar finnst tæpast neinn verðugur keppinautur.

Sumir sjá framtíðarforingja í borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur tvíþætta reynslu, annars vegar af því að halda friðinn milli hópanna í Reykjavíkurlistanum og hins vegar af því að lemja duglega á stjórnarandstöðuflokknum.

En erfitt verður að taka Samfylkinguna alvarlega fyrr en hún er búinn að játa fyrir almenningi og skilgreina fjárhagslegar syndir kosningabaráttu sinnar.

Jónas Kristjánsson

DV