Davíð skaffaði

Greinar

Sigursæl kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins var einföld og æsingalaus. Það mannlega sameinaði hún tilvísunum í almælt tíðindi. Hún vakti athygli á foringja flokksins og góðærinu, sem verið hafði á kjörtímabilinu. Í stuttu máli sagði flokkurinn: Davíð skaffaði.

Baráttan vísaði ekki til nútíðar og því síður til framtíðar. Hún var hugsuð í þátíð og höfðaði til þess, að fólk telur sig í framtíðinni geta treyst þeim, sem hafi staðið sig vel í fortíðinni. Tilvísun til reynslu er oft sterkari áróður en loforð um gull og græna skóga.

Markhópur Sjálfstæðisflokksins var sá ríflegi meirihluti kjósenda, sem hefur það töluvert betra núna en hann hafði fyrir fjórum árum. Það var nægilega stór markhópur fyrir stærsta flokk þjóðarinnar, enda reyndist hann vera móttækilegur fyrir áróðrinum.

Stærsti flokkurinn taldi sig hafa ráð á að forðast í kosningabaráttunni að þykjast vera allt fyrir alla. Hann féll ekki í gryfju Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Hann valdi sér markhóp og náði góðu sambandi við hann, en lét smælingja þjóðfélagsins eiga sig.

Þar sem skilaboðin voru skýr, þurfti Sjálfstæðisflokkurinn ekki dýra kosningabaráttu til að koma þeim á framfæri. Hann notaði helmingi minna fé en keppinautarnir tveir notuðu hvor um sig og kom því um leið til skila, að hann væri hófsamur innan um eyðsluseggi.

Græna vinstrið fetaði svipaða braut og Sjálfstæðisflokkurinn og þurfti sáralitla peninga til að koma því á framfæri, að það væri allt öðruvísi flokkur en allir hinir flokkarnir. Hér væri kominn flokkur, sem hefði sérstöðu og nánast sérvizku á öllum helztu sviðum.

Markhópurinn var tiltölulega fámennur, innan við fimmtungur þjóðarinnar. Flokkurinn taldi sig geta leyft sér að hafa á ýmsum sviðum stefnu, sem meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn. Flokkurinn vildi virðast vera eins konar fjölmennur sértrúarsöfnuður og tókst það.

Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði Græna vinstrið kjósendum ekki gulli og grænum skógum, heldur vakti athygli á sérstöðu sinni í pólitíkinni. Þetta þótti traustvekjandi og varð til þess, að nýi flokkurinn náði öllu því fylgi, sem hann hafði fyrirfram sagzt stefna að.

Þessi tvö dæmi sýna yfirvegaða stjórnmálaflokka, sem vissu, hverjir voru vænlegir markhópar og sneru sér að þeim, eyddu litlu fé í baráttuna, lofuðu fáu fögru, og komu á framfæri, fyrir hvað þeir stæðu, fremur en væntanlegar velgjörðir sínar á næsta kjörtímabili.

Aðrir stjórnmálaflokkar geta ýmislegt lært af þessu. Það er til dæmis tvíeggjað að selja sál sína gjafmildum stórhvelum fjármálanna til að fjármagna allt of dýra kosningabaráttu. Það er líka tvíeggjað að þykjast vilja vera allt fyrir alla. Allt vitnar þetta um óráðsíu.

Niðurstaða kosninganna gefur tilefni til að ætla, að vel þegið hlé verði næsta áratuginn á undanhaldi stjórnmálanna yfir í umbúðir og ímyndir án innihalds, fjárhagslegt vændi og hrun góðra siða. Í næstu kosningum verður öllum ráðlegt að fara að slíkum æfingum með gát.

Hingað til hafa ímyndunarfræðingar og auglýsingamenn talið okkur trú um, að leiðin til viðskiptalegrar velgengni felist í því sem næst algeru sambandsleysi umbúða og innihalds, botnlausum ýkjum og hressilegum rangfærslum, fluttum með engilhreinum svip.

Hingað til hefur verið haft fyrir satt, að fólk kunni engin ráð við þessum brögðum og láti teyma sig á asnaeyrunum. En kannski er heimurinn hættur að versna.

Jónas Kristjánsson

DV